Kvennalið Breiðabliks í knattspyrnu er mikið bikarlið, en liðið er að fara í sinn fjórða bikarúrslitaleik á síðustu fjórum árum er liðið mætir Íslandsmeisturum Vals á Laugardalsvelli í kvöld, föstudaginn 16. ágúst kl. 19:15.
Blikarnir þurfa þó aðeins að girða sig í brók og fara að snúa úrslitaleikjunum sér í hag því þær hafa tapað síðustu tveimur leikjum, á móti Víkingi (2023) og Val (2022), en liðið sigraði Þrótt þó sannfærandi 4-0 árið 2021 auk þess sem þær voru komnar í undanúrslit árið 2020 er keppnin var flautuð af vegna Covid.
Lyfta Blikastúlkur bikarnum í fjórtánda sinn
Breiðablik er næst sigursælasta liðið í Mjólkurbikarnum, en það hefur hampað titlinum 13 sinnum og geta með sigri í kvöld orðið sigursælasta lið bikarkeppninnar ásamt Val, en bæði lið hafa þá lyft bikarnum fjórtán sinnum.
Ásamt því að Breiðablik og Valur séu komin í sjálfan úrslitaleikinn þá eru liðin einnig að takast á um Íslandsmeistaratitilinn þar sem Valur er þremur stigum á undan Blikum það er því ljóst að framundan er æsispennandi leikur þar sem bæði lið munu leggja allt í sölurnar til að landa Mjólkurbikarnum.
Kópavogspósturinn hleraði fyrirliða Breiðabliks, Ástu Eir Árnadóttur og spurði hana hvort Blikastelpurnar væru ekki vel stemmdar fyrir leikinn, en þetta er tíundi leikurinn sem Breiðablik og Valur mætast í úrslitaleiki bikarkeppninnar, sem var fyrst haldin árið 1981.
Hvernig koma Blikastelpur stemmdar í þennan leik – mikil eftirvænting fyrir leiknum? ,,Við komum vel stemmdar í leikinn eftir góða frammistöðu í síðasta leik. Mikil tilhlökkun í hópnum að fara aft- ur á Laugardalsvöllinn,” segir Ásta Eir, en Breiðablik vann Þór/KA sannfærandi 4-2 sl. sunnudag og er nú bara einu stigi á eftir Val í Bestu deildinni.
Hefðbundin æfingavika
Hafið þið undirbúið ykkur eitthvað sérstaklega fyrir þennan stórleik á móti Val eða hefur vikan verið hefðbundin? ,,Við tökum hefðbundna æfingaviku núna fram að leiknum. Það er oft fínt að vera ekki að breyta mikið til, þetta er bara annar fótboltaleikur.”
Og það er varla hægt að segja að það vanti bikarreynsluna í leikmannahópinn enda er þetta fjórði úrslitaleikurinn ykkar í röð í Mjólkurbikarnum – má ekki segja að þið séuð orðnar nokkuð sjóaðar þegar kemur að bikarúrslitaleikjum? ,,Jú, eða svona bæði og bara,” segir hún brosandi.
Eru með öflugan hóp þrátt fyrir forföll
Þið hafið misst þrjá sterka pósta úr leikmannahópnum á síðustu vikum, Öglu Maríu, Ólöfu Sigríði og Áslaugu Mundu. Hvernig er staðan á hópnum og hefur þessi missir haft mikil áhrif á leik liðsins? ,,Já, það er rétt, það var mikið högg að missa þessa leikmenn, enda allir frábærir. En sem betur fer erum við með mjög öflugan hóp og það kemur alltaf maður í manns stað.”
Hefur gengið vel að verja markið
Nú hefur varnarleikurinn ykkar verið góður í sumar og þið aðeins fengið á ykkur 7 mörk í 16 leikjum, langfæst allra liða í deildinni. Hefur spilamennska ykkar í sumar snúist mikið um öflugan varnarleik fyrst og fremst og verður svo í úrslitaleiknum? ,,Það hefur gengið vel að verja markið okkar og það byrjar allt frá fremstu mönnum. Við erum að verjast vel sem lið, en spilamennskan í sumar hefur ekkert endilega snúist um það. Meira að þekkja inná hvor aðra og þekkja leikkerfin vel. Ef það gengur vel þá náum við oftast í góð úrslit.”
Og það hlýtur að styrkja ykkur enn frekar að systir þín, Kristín Dís er mætt heim að nýju úr atvinnumennsku – gott að fá hana til baka? ,,Já, ekki spurning. Mjög gott að fá Kristínu heim og hún er frábær leikmaður og mun reynast okkur vel í framhaldinu.”
Eru einhverjir aðrir þættir en þeir sem gerist á fótboltavellinum sem skipta máli í undibúningi fyrir svona stóran leik? ,,Já klárlega, eðlilega getur komið stress fyrir svona stóra leiki, en leikmenn þurfa að minna sig á að þetta er bara fótboltaleikur og það er mikilvægt að tapa sér ekki í stressi.”
Bæði lið öflug varnarlega og með skapandi leikmenn framm á við
Þið hafið leikið tvívegis við Val í sumar, unnuð heima 2-1, en töpuðu fyrir tveimur vikum að Hliðarenda, 1-0. Eru þetta mjög áþekk lið hvað styrkleika varðar og spila þau svipaðan leik? ,,Já, það eru tvö virkilega góð lið að mætast. Bæði lið hungruð í að vinna og þetta eru alltaf spennandi leikir. Bæði lið öflug varnarlega og með skapandi leikmenn framm á við.”
Áttu von að þetta verði frekar lokaður og varfærinn leikur enda mikið undir? ,,Erfitt að segja til um það, en það kæmi mér ekkert á óvart að þetta yrði frekar lokaður leikur. Vonandi verður þetta samt sem áður góð skemmtun.”
Kominn tími á titil
Hvaða þýðingu mun sigur í Mjólkurbikarnum hafa fyrir Breiðablik og upp á framhaldið í deildinni þar sem þið eruð að berjast um Íslandsmeistaratitilinn við Val? ,,Að vinna Mjólkurbikarinn væri auðvitað frábært fyrir okkur sem lið, höfum ekki unnið titil í smá tíma og það er kominn tími á það. Það myndi gefa okkur gott veganesti inn í restina af tímabilinu.”
Stuðningurinn úr stúkunni er okkur gríðarlega mikilvægur
Og eins og ávallt skiptir stuðningur Blika og Kópavogsbúa miklu máli – gott að finna fyrir stuðningi úr stúk- unni? ,,Ekki spurning. Mig langar bara að hvetja alla Kópavogsbúa að mæta og horfa á tvö bestu lið landsins berjast um titil. Stuðningurinn úr stúkunni er okkur gríðarlega mikilvægur og ég vona að sem flestir mæti.”
Gott að vera í vinnunni á leikdegi
Svona að lokum, ert þú með einhverjar sérstakar hefðir fyrir leiki, hverjar þá og hvernig verður leikdagurinn hjá fyrirliðanum fram að leik? ,,Bara eins og hver annar leikdagur! Ég passa uppá að næra mig vel yfir daginn og mun svo vinna eitthvað líka, gott að vera í vinnunni þar sem hausinn er ekki bara á leiknum sjálfum. Svo mæti ég í leikinn og verð tilbúinn í slaginn,” segir fyrirliðinn sem ítrekar að stuðningur úr stúkunni skiptir miklu máli.
Breiðablik og bikarkeppnin
Breiðablik hefur leikið 21 bikarúrslitaleik frá 1981, unnið 13 og tapað 8. Í þessum 21 leik þá hafa þær níu sinnum mætt Val, sigrað fjóra en tapað fimm.
Tvívegis hefur leikurinn farið í vítakeppni á milli Breiðablik og Vals. Blikarnir sigr- uðu í vító, 7-6 árið 1982 en töpuðu 1-4 árið 2006. Árið 2009 fór leikurinn í framlengingu á milli liðanna en Valur kláraði þá leikinn í framlengingu 5-1 eftir að staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma.
Það er nokkuð magnað að af samtals 43 úrslitaleikjum í bikarkeppni kvenna þá eru aðeins átta úrslitaleikir sem hafa farið fram án þess að hvorki Breiðablik né Valur séu í honum. Annað hvort Valur eða Breiðablik eða bæði hafa því verið þátttakandi í 36 bikarúrslitaleikjum af 44 með leiknum á morgun.
Bikarúrslitaleikir Breiðabliks
(21 þar af 13 sigrar og 8 töp) 2023 Breiðablik – Víkingur 1-3
2022 Breiðablik – Valur 1-2
2021 Breiðablik – Þróttur R. 4-0
2018 Stjarnan – Breiðablik 1-2
2016 Breiðablik – ÍBV 3-1
2013 Breiðablik – Þór/KA 2-1
2009 Valur – Breiðablik 1-1, 5-1
2006 Breiðablik – Valur 3-3, 3-3, 1-4 Víti 2005 Breiðablik – KR 4-1
2001 Valur – Breiðablik 2-0 2000 Breiðablik – KR 1-0 1999 KR – Breiðablik 3-1 1998 Breiðablik – KR 3-2 1997 Breiðablik – Valur 2-1
1996 Breiðablik – Valur 3-0
1994 Breiðablik – KR 1-0
1992 ÍA – Breiðablik 3-2
1986 Valur – Breiðablik 2-0
1983 Breiðablik – ÍA 3-1
1982 Breiðablik – Valur 1-1, 7-6 Víti 1981 Breiðablik – Valur 4-0
Mynd (KSÍ). Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks og Elísa Viðarsdóttir fyrirliði Vals.