Veitingahúsið 27 mathús býður upp á fjölskylduskemmtun og vöffluveislu
Leikhópurinn Lotta ætlar að flytja Pínulitlu gulu hænuna á veitingahúsinu 20&SJÖ laugardaginn 12. júní. Um er að ræða sumarsýningu Lottu og er hún fjörug, full af húmor og frábærum sönglögum.
Hringur Helgason, framkvæmdastjóri 20&SJÖ, segir spennandi að fá leikhús inn á veitingahúsið. „Við höfum verið að prófa okkur áfram með viðburði og ætlunin er að brydda upp á ýmsu í sumar. Lotta er frábær hópur sem kann að skemmta börnum og líka fullorðnum,“ segir Hringur.
Einstök vöffluveisla
Að lokinni sýningu verður boðið til vöffluveislu sem er einstök? „Já, vöffluveislan er nýjung hjá okkur um helgar. Við bjóðum það sem Ameríkanar kalla soul food eða mat fyrir sálina; vöfflur með Suðurríkjakjúklingi, hunangssmjöri, heimagerðu beikoni og djúpsteiktum maís. Algjör snilld. Svo eru auðvitað belgískar vöfflur með ávöxtum, berjum, súkkulaði og rjóma,“ segir Hringur.
Veitingahús njóta þess nú að slakað hefur verið á samkomutakmörkunum. Hringur segir mikinn létti að geta tekið á móti fleiri gestum en áður. „Við þekkjum ekkert annað en Covid enda rétt rúmlega ársgömul. Nú horfum við hins vegar bjartsýn fram á veg og vonum að sumarið verð góður tími fyrir alla.“
Takmarkað magn miða en þá er hægt að nálgast á tix.is.