Laun kennara í Kópavogi hækka um 1,1 ma.kr á milli áranna 2024 og 2025 vegna nýrra kjarasamninga

Samkvæmt nýjum kjarasamningi við kennara munu launahækkanir sem samið var um í síðustu viku hafa töluverð áhrif á fjárhag sveitarfélaga og jafnvel kalla á bæði hagræðingar og mögulegar gjaldskrárhækkanir í sveitarfélögunum. 

Eins og fram hefur komið í umræðunni eru sveitarfélögin misvel stödd til að takast á við þessar ríflegu launahækkanir og því spurning hvaða áhrif samningarnir hafa á rekstur sveitarfélaga sem eyrnamerktu flest hver ákveðna upphæð í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025, en sjálfsagt ekki líkingu við þá launahækkun sem samið var um.

Þá hafa margir einnig áhyggjur af því hvaða áhrif samningarnir gætu haft á verðbólgu og vexti vegna hugsanlegra launaskrafna annarra stétta í þjóðfélaginu í kjölfarið.

Kópavogspósturinn heyrði í Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra í Kópavogi og spurði hann nánar um þessi mál.

Mjög kostnaðarsamir samningar

Hvernig líst henni á að samkomulag hafi náðst við kennara um launahækkanir og að verkföllum hafi verið afstýrt? ,,Við fögnum því að samkomulag er í höfn enda ljóst að ótímabundin verkföll í öllum leikskólum Kópavogs hefðu haft víðtæk og mikil áhrif á börnin okkar og samfélagið allt.  Ljóst er hins vegar að þetta eru mjög kostnaðarsamir samningar. Fjárhagsstaða allra sveitarfélaga er þröng og til að mæta þessum kostnaði þurfa sveitarfélög að grípa til aðgerða,“ segir Ásdís.
Hækkunin um 420 m.kr umfram það sem áætlað var í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025

Hversu margir kennarar í Kópavogi falla undir þessa nýju samninga, hver er kostnaðurinn fyrir bæinn vegna þeirra og var Kópavogur búinn að eyrnamerkja ákveðna upphæð í fjárhágsáætlun ársins 2025 vegna nýrra kjarasmaninga við kennara? ,,Hjá Kópavogsbæ eru þetta um 800 kennarar í 700 stöðugildum. Við gerum ráð fyrir að þessi samningur muni leiða til þess að laun hækki um 1,1 ma.kr á milli áranna 2024 og 2025, sem er um 420 m.kr umfram það sem áætlað var á árinu 2025,“ segir hún.

Öll sveitarfélög þurfa að mæta þessum hækkunum með einhverjum hætti

Hvernig ætla Kópavogur að fjármagna þessa launahækkun? Verður hagrætt í rekstri og þurfa íbúar að búa sig undir gjaldskrárhækkanir? ,,Ljóst er að Kópavogsbær og sveitarfélög öll þurfa að mæta þessum hækkunum með einhverjum hætti,  hvort sem er með hagræðingu í rekstri og/eða hækkun gjaldskráa. Ég mun eiga samtal við bæjarráð og stjórnendum bæjarins þegar við höfum kortlagt stöðuna og koma með tillögur til hvaða aðgerða við getum gripið til.“

Stefna meirihlutans er skýr, við munum ekki hækka skatta á bæjarbúa

Og ef það verða gjaldskrárhækkanir hvar munu þær þá helst koma fram, ekki getið þið hækkað útsvarið sem er 14,93%? ,,Stefna meirihlutans er skýr, við munum ekki hækka skatta á bæjarbúa. Í forgangi hjá okkur hefur verið að skapa rými í rekstri til að lækka skatta á íbúa og það höfum við gert öll árin á þessu kjörtímabili. Okkar áherslur hafa ekki breyst hvað þetta varðar. Gjaldskrár Kópavogsbæjar fylgja raunkostnaði, þannig að launahækkanir sem þessar munu á endanum skila sér til hækkunar á gjaldskrám amk að einhverju marki. Ljóst er þó að það þarf að hagræða í rekstri til að draga úr kostnaði. Verkefnið fram undan er að finna leiðir til þess,“ segir Ásdís.

Hættan sú að hið klassíska íslenska höfrungahlaup raungerist

Hvaða áhrif haldið þið að þessir samningar muni hafa á verðbólgu og þar með vaxtastig – nú munu sjálfsagt aðrar stéttir miða við þessa launahækkun kennara er þeir ganga næst að samningsborðinu? ,,Sveitarfélög voru reiðbúin að fara þessa virðismatsleið til að mæta kröfum kennara um að meta laun og réttindi  kennara til samanburðar við önnur sambærileg störf á almennum markaði. Ef ekki ríkir sátt í samfélaginu hins vegar um að hækka sérstaklega laun kennara umfram aðrar stéttir þá er hættan sú að hið klassíska íslenska höfrungahlaup raungerist, þar sem aðrar stéttir reyna að sækja svipaðar hækkanir. Þá tapa allir og afleiðingin er aukin verðbólga og hækkandi vextir,“ segir hún.

Mun kortleggja stöðuna og eiga samtal við bæjarráð

Er Kópavogur í nægilega sterkri stöðu til að mæta þessum aukna launakostnaði kennara? ,,Fjárhagsstaða Kópavogsbæjar er sterk en svona miklar hækkanir er ekki hægt að mæta án aðgerða, það blasir við. Ég mun því kortleggja stöðuna núna og eiga samtal við bæjarráð um hvernig við mætum þessum kostnaði,“ segir Ásdís að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins