Landnemaspildum var úthlutað á Vatnsendaheiði

Fyrir tæpum 30 árum hófu Skógræktarfélag Kópavogs og Kópavogsbær samstarf um ræktun trjágróðurs á 100 hektara svæði á Vatnsendaheiði í Kópavogi, milli Guðmundarlundar og Heiðmerkur. Skógræktarfélagið úthlutaði þar svokölluðum landnemaspildum til félagsmanna sinna, annarra félagasamtaka og stofnana sem vildu fá landskika til skógræktar. Einnig fengu allir grunnskólar Kópavogsbæjar úthlutað spildu til ræktunar og gengur það svæði undir nafninu Skólaskógar. Stór hluti svæðisins er svokallaður Landgræðsluskógur.

Heiðin hefur breyst mikið á undanförnum árum og nú vaxa þar víða þróttmikil tré þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður. Vatnsendaheiði er orðið eftirsóknarvert svæði með fjölbreytilegum útivistarmöguleikum og þangað leita þúsundir manna ár hvert til að njóta þess sem svæðið hefur upp á að bjóða. 

Skógræktarfélagið og Kópavogsbær ákváðu á síðasta ári að bjóða almenningi að taka þátt í útivistar- og fjölskyldudögum á Vatnsendaheiði þar sem horft var til framtíðar og gróðursettar trjáplöntur í þágu aukinna lífsgæða. Gróðursetningardagarnir urðu þrír og þar sem vel tókst til var ákveðið að festa útivistar- og fjölskyldudagana enn frekar í sessi og í ár hefur verið þegar verið boðið upp á tvo gróðursetningardaga sem fram fóru 27. júní og 5. júlí og síðan er stefnt á einn eða tvo daga í byrjun september. Það verður auglýst þegar nær dregur.

Sigrún Óskarsdóttir mætti til gróðursetningar og aðspurð sagði hún að þetta væri gæðastund því hún væri komin til að leggja sitt að mörkum við að fanga koltvísýring úr loftinu, vernda jarðveg, skapa skjól og styrkja um leið Vatnsendaheiði sem frábært útivistarsvæði. Sigrún hvetur fjölskyldur og einstaklinga til að taka þátt í þessu frábæra fjölskylduverkefni, en þessar gróðursetningarnar henta börnum vel enda eru þau mjög vel meðvituð um mikilvægi verkefnisins og hafa gaman af. 

Mynd: Sigrún Óskarsdóttir (t.h.) var mætt ásamt ungri frænku sinni Guðrúnu Bertu Stefánsdóttur til að leggja samfélaginu lið

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar