Útskrift 10. bekkjar í Lindaskóla var haldin hátíðleg í síðustu viku í matsal skólans. Nemendur og foreldrar mættu spariklæddir á útskriftina sem og kennarar skólans. Athöfnin hófst á ávarpi Guðrúnar G. Halldórsdóttur, skólastjóra og í kjölfarið kom að stóru stundinni þar sem Margrét Ármann aðstoðarskólastjóri, afhenti einkunnir sem og viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Fulltrúi foreldra, Salah Karim Mahmood, flutti ávarp til nemenda og fulltrúar nemenda, þær Birna Mjöll Björgvinsdóttir og Sigríður Emma Guðlaugsdóttir fluttu ávarp til útskriftarnema.
Útskriftardagskráin var með hefðbundnu sniði en sú breyting varð á, að í stað þess að foreldrar kæmu með veitingar á hlaðborð og gæddu sér á þeim ásamt nemendum og kennurum, þurftu foreldrar að fara heim að athöfn lokinni vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Þar sem árshátíð unglindadeildar hafði ekki verið haldin á vordögum vegna covid19 tók árshátíð 10. bekkinga við að útskriftarathöfn lokinni. Skólinn sá um smáréttarhlaðborð sem Matthildur matráður útbjó með glæsibrag fyrir nemendur og kennara 10. bekkinga. Dagskráin var glæsileg þar sem árshátíðarmyndbandið var flutt, flottir vinningar voru dregnir út, matarblogg Nóa var sýnt og síðan tók dansiball við. Í lok árshátíðarinnar mættu leynigestir á ballið, þeir Sprite Zero Klan og trylltu alla á dansgólfinu. Árshátíðinni lauk kl. 23:00 og kvöddu þá nemendur kennara, margir með tárin í augunum.