Kristofer Rodríguez er bæjarlistamaður Kópavogs árið 2024

Slagverksleikarinn og tónskáldið Kristofer Rodrgíuez Svönuson  er bæjarlistamaður Kópavogs 2024. 
Valið var tilkynnt við hátíðlega athöfn í Salnum í dag, föstudaginn 24. maí. Elísabet Berglind Sveinsdóttir, formaður lista- og menningarráðs tilkynnti valið og sagði í ávarpi sínu að lista-og menningaráð hefði verið einróma um tilnefninguna. Líkt og áður bárust lista- og menningarráði fjölmargar ábendingar og umsóknir um Bæjarlistamann Kópavogs, sem sýnir vel hversu gróskumikill menningarbær Kópavogur er og hversu mikið af  öflugu listafólki býr þar.
 
Kristofer Rodríguez Svönuson
Kristofer Rodríguez Svönuson er slagverksleikari og tónskáld af íslenskum og kólumbískum uppruna. Hann er fæddur árið 1988 og ólst upp í Kópavogi þar sem hann býr enn í dag. Árið 2014 útskrifaðist Kristofer úr FÍH. Fyrir hönd skólans tók hann þátt í ýmsum verkefnum bæði innanlands og erlendis og ber þar helst að nefna þáttöku í Young Nordic Jazz Comets með hljómsveitinni Two Beat Dogs og verðlaun á Nótunni 2013 með hljómsveitinni Gaukshreiðrið. Kristofer lagði stund á slagverksnám á Kúbu undir leiðsögn David Lopez og í Kolumbíu undir leiðsögn Fabio Ortiz sem er af mörgum talinn fremsti slagverksleikari Suður Ameríku um þessar mundir. Kristoferr hefur starfað með mörgu af helsta tónlistarfólki Íslands í jazz, heimstónlist og poppi og ber þar helst að nefna Mugison, KK, Hjálma, Cell7, Júníus Meyvant, Los Bomboneros, Lay Low, Tómas R. Einarsson, Stuðmenn, Sunnu Gunnlaugsdóttur, Skuggamyndir Frá Býsans, Ragnheiði Gröndal, SJS Big Band, Sigríði Thorlacius, Berndsen, Kristjönu Stefánsdóttur, Stórsveit Reykjavíkur, Kira Kira, Ingibjörgu Turchi og Soffíu Björg. Kristofer hefur einnig spilað með erlendu tónlistarfólki og tónskáldum á borð við Jack Steadman (Bombay Bicycle Club) og Nighmares On Wax. Kristofer hefur samið og gefið út tónlist einn og með öðru samferðarfólki sínu.  Árið 2019 gaf hann út sýna fyrstu plötu Primo, sem gefin var út af Lucky Records og var platan tilnefnd sem plata ársins í opnum flokki á íslensku tónlistarverðlaununum. Um þessar mundir er Kristofer að vinna að nýrri plötu.

Svo lánsamur að vera umkringdur frábæru tónlistarfólki 

Kritsofer Rodríguez segir það mikinn heiður og öfluga hvatningu að fá þessa viðurkenningu frá Kópavogsbæ. „Ég er svo lánsamur að vera umkringdur frábæru tónlistarfólki sem ég hef fengið að rannsaka tónlist með. Þessi viðurkenning hvetur og skapar nýjar forsendur til frekari rannsókna með góðu fólki sem íbúar Kópavogs geta vonandi notið góðs af. Ég hyggst spila og kynna fjölbreytta heimstónlist í Kópavogi með ólíku tónlistarfólki, halda námskeið og smiðjur og kynna slagverkshljóðfærið“, segir hinn nýi Bæjarlistamaður Kópavogs.

Kristofer er mikill happafengur fyrir Kópavogsbúa

Elísabet Sveinsdóttir formaður lista- og menningarráðs segir að Kópavogsbúar geti farið að hlakka til að njóta, læra og takk þátt í tónlistarsköpun þessa hæfileikaríka bæjarlistamanns.  „Við erum mjög spennt að sjá hvað hann gerir hér í Kópavogi á komandi ári. Kristofer hefur átt glæsilegan feril og það verður virkilega gaman að sjá hvernig hann mun vinna með menningarhúsunum og ungmennahúsinu Molanum og ljóst að hann er mikill happafengur fyrir okkur Kópavogsbúa“, segir Elísabet.

Forsíðumynd: Bæjarlistamaður Kópavogs, slagverksleikarinn og tónskáldið Kristofer Rodríguez Svönuson ásamt Soffíu Karlsdóttur, forstöðumanni menningarmála, Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra og Elísubetu Sveinsdóttur, formanni lista- og menningaráðs Kópavogs.
 
Ljósmyndari: Leifur Wilberg Orrason

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar