Kostnaðurinn hleypur á milljónum króna – Strætóskýli skemmd viðsvegar um Kópavog

Talsvert hefur verið um skemmdarverk á strætóskýlum í Kópavogi eins og bæjarbúa hafa sjálfsagt tekið eftir á undanförnum mánuðum, en glerin hafa þá yfirleitt verið brotin og hleypur viðgerðarkostnaðurinn sem fellur á bæinn á milljónum króna.

Flest skýlin skemmd í Kóra-, Þinga- og Hvarfahverfi

,,Já, það er rétt. Það hefur verið talsvert um skemmdarverk á strætóskýlum undanfarin misseri en þau virðast koma í bylgjum,“ segir Sigríður Björg Tómasdóttir almannatengill Kópavogsbæjar. Hún segir skemmdarverkin hafa átt sér stað í öllum hverfum bæjarins þó að þau hafi verið heldur meiri í efri byggðum Kópavogs en annars staðar og flest í Vatnsendahverfi.

Stæra sig af skemmdarverkunum á samfélagsmiðlum

,,Við höfum fengið ábendingar um að krakkar hafi verið að stæra sig af því á samfélagsmiðlum að hafa brotið gler í skýlunum en það hefur enginn verið staðinn að verki og ábendingarnar ekki nýst til frekari eftirgrennslan,“ segir Sigríður.

Glerin í strætóskýlum á Vatnsendavegi við Kríutorg hafa verið brotin nokkrum sinnum á undanförnum mánuðum og hafa skemmdarvargarnir brotið öll glerin í skýlunum eins og þessi mynd er til vitnis um.

Misjafnt hve mörg gler eru brotin í hverri árás

Viðgerðarkostnaður hleypur á bilinu 600 þúsund til einnar milljónar fyrir skýli sem fer eftir stærð og umfangi skemmdanna og því hleypur kostnaðurinn á nokkrum milljónum. „Skemmdarverkin snúast einkum um brot á glerjum í skýlunum, ekki um skemmdir á grindinni. Það eru ýmist fimm eða sjö gler í hverju skýli og misjafnt hversu mörg eru brotin hverju sinni. Á síðasta ári var kostnaðurinn við kaup á nýjum rúðum 3,6 milljónir króna sem eru um 75 rúður. Það er sambærilegt við að allar rúðir hafi verið brotnar í um 11 skýlum með sjö rúðum, en heildarfjöldi skýla sem var skemmdur var mun hærri,“ segir Sigríður en eins fram kemur í máli hennar eru ekki alltaf öll glerin brotin í hverju skýli svo þau eru töluvert fleiri en 11 sem hafa orðið fyrir skemmdum. Þá er kostnaðurinn við hreinsunarstörf og vinnuna við að setja glerin í ekki tekin með.

Billboard tekur við rekstri skýlanna

,,Það er verið er að ganga frá samningi um að eignarhald og viðhald strætóskýlanna færist yfir til fyrirtækis sem setur upp ný skýli með LED skjám og rauntímavöktun á völdum stöðum. Fyrstu skýlin fara að koma upp á komandi vikum og uppsetning mun halda áfram á næsta ári,“ segir hún, en það er Billboard sem eru í eigu Símans, sem tekur yfir skýli bæjarins.

Rauntímaupplýsingar um ferðir strætisvagnanna með nýjum skýlum

En er bærinn að gefast upp á rekstrinum vegna skemmdarverka og kostnaðar? ,,Nei, alls ekki. Það var alltaf einkaaðili, sem er nú hættur starfsemi á Íslandi, sem sá um rekstur á flestum strætóskýlum bæjarins, en við ætluðum alltaf að taka bara tímabundið yfir þau eftir að hann hætti. Megin hvatinn við að semja við Billboard er að koma á fót rauntímaupplýsingum um ferðir strætisvagnanna og fyrst fyrirtækið var tilbúið að taka yfir rekstur skýlanna gjaldfrítt í skiptum fyrir að auglýsingapláss að þá var það jákvætt fyrir báða aðila,“ segir Sigríður, en ekki var leitað til eins fyrirtækis umfram annars. ,,Það var farið í markaðskönnun þar sem öllum þeim sem tilbúnir væru að setja upp skýli og annast rekstur þeirra var gefið tækifæri að láta vita og taka þátt í útboði. Einungis Síminn/Billboard hafði áhuga á þessu verkefni og því hægt að semja við þá beint,“ segir Sigríður að lokum, en Billboard hefur mikla reynslu er kemur að rekstri LED-strætóskýla.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar