Kópavogur stígur tímamótaskref í leikskólamálum – barnsins vegna.

Undanfarin ár hefur verið á brattann að sækja í að manna stöður í leikskólum. Vinnudagur barna er langur og mikið álag er í leikskólum, meðal annars vegna veikinda starfsfólks.

‘Það má með sanni segja að leikskólinn sé auðlind og það þarf að grípa til aðgerða strax til að vernda þessa auðlind. Síðastliðið ár hefur verið einn ólgusjór og margir leikskólar hafa þurft að skerða opnunartíma sinn og jafnvel loka deildum fyrirvaralaust vegna manneklu. Skortur er á leikskólakennurum og er mikilvægt að halda áfram að mennta fleira fólk í takt við aukna eftirspurn. Margir stjórnendur og kennarar eru að niðurlotum komnir við að halda skólum opnum en sumir hafa einfaldlega horfið af braut og þá sjáum við á bak hæfu fólki og förum á mis við fagþekkingu og reynslu sem fylgir þeim.

Eftir úttekt á stöðu leikskóla Kópavogs kom í ljós að starfsfólk var undir miklu álagi þar sem veikindadagar voru að meðaltali um 40 dagar á hvert stöðugildi á ári, ásamt því að illa hafi tekist að manna lausar stöður. Dæmi voru um að í sex stöður sem þurfti að ráða í fyrir síðasta skólaár voru (á fimm vikna tímabili) ráðnir nítján einstaklingar sem stoppuðu mislengi í starfi. Slík velta veldur gríðarlegu álagi á starfsfólk sem fyrir er svo ekki sé talað um álagið á börnin. Þegar starfsmannaveltan er mikil er erfitt að halda uppi faglegu leikskólastarfi þar sem aukið álag fylgir því að þjálfa upp nýtt starfsfólk. Aðalatriðið er þó að stöðugleiki í starfsmannahaldi skiptir börnin miklu máli til að þau upplifi öryggi og vellíðan í skólanum sínum, í því umhverfi þar sem þau verja flestum vökustundum daglega.

Í samanburði á starfi leikskóla innan OECD sem gerður var 2018 kom í ljós að börn á Íslandi dvelja lengstan dag og flesta daga ársins í minnsta rýminu í leikskólanum. Þessi niðurstaða fær mann til að hugsa “Hve mikið er nóg?“. Niðurstaða starfshóps um bættar starfsaðstæður leikskóla leiddi í ljós að keyptur dvalartími er að meðaltali 8,1 klukkustund á meðan nýtingin er um 7,5 klukkustund, en 86% barna er að meðaltali 8 tíma eða lengur á dag. Einnig kom fram að heppilegra væri að loka leikskólum á milli jóla og nýárs, dymbilviku og í vetrarfríum til að auka fyrirsjáanleika fyrir foreldra og létta á álagi í starfi leikskólanna. Tekið verður tillit til þeirra sem ekki hafa tök á því með því að tveir til fimm leikskólar verði opnir þá daga. Oft hefur heyrst að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn og er mikilvægt að taka höndum saman allir sem einn þannig að atvinnulífið komi betur til móts við ungar barnafjölskyldur að veita meiri sveigjanleika á vinnutíma.

Við þurfum að breyta þeirri hugsun að börn hafi gott af því að vera rúmlega 8 klukkustundir á dag í leikskólanum. Oft heyrist að gott sé að hafa þennan tíma uppá að hlaupa þar sem dvalargjaldið er rétt um 38 þúsund eða um tæp 12% af kostnaði leikskólagjalds. Ef við miðum skóladvöl barns við 6 klukkustundir léttum við á leikskólakerfinu sem er þegar komið að þolmörkum. Ef leikskólagjöld hefðu fylgt raunkostnaði frá árinu 2005 væri gjald í dag fyrir rúmar 8 klukkustund um 95.000 krónur sem er þó aðeins 20% af raunkostnað eins og þekktist hér áður fyrr. Hingað til hefur Kópavogsbær haldið þessu gjaldi niðri til að koma til móts við barnafjölskyldur en það dugar einfaldlega ekki lengur ef leikskólinn á að vera eitthvað meira en eingöngu gæslustofnun. Við sem samfélag þurfum að fara að sameinast í ákvörðun um hvað er barninu fyrir bestu. Með því að bjóða upp á gjaldfrjálsan leikskóla í 6 klukkustundir á dag erum við að taka stórt skref í þá átt.
Kópavogsbær er að stíga tímamótaskref í þágu barna.

Sigrún Hulda Jónsdóttir, leikskólastjóri og bæjarfulltrúi í Kópavogi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar