Fimmtu flestu hátekjuheimili á Íslandi eru í Kópavogi, en flest eru þau á Seltjarnarnesi og næst flest í Garðabæ, samkvæmt manntali Hagstofunnar í ársbyrjun 2021, sem birtist sl. fimmtudag. Þá eru mörg lágtekjuheimili í miðborg Reykjavíkur og á Ásbrú.
Skipting tekna var misjöfn eftir heimilisgerð í manntalinu 2021
Ef heimilum í landinu er skipt upp í jafna tekjufimmtunga með rúmlega 26 þúsund heimilum í hverjum fimmtungi kemur í ljós að í efsta tekjufimmtungi voru heimili para með börn hlutfallslega flest en heimili einstæðra foreldra hlutfallslega fæst.
Hæst hlutfall heimila í neðsta tekjufimmtungi voru heimili með einum einstaklingi. Í efsta tekjufimmtungi eru heimili sem hafa 889 þúsund krónur eða meira á mánuði á neyslueiningu en í neðsta tekjufimmtung falla þeir sem hafa minna en 414 þúsund krónur á mánuði.
Miðgildi tekna í efsta tekjufimmtungi var 1,1 milljón króna á mánuði en miðgildi neðsta tekjufimmtungs var tæp 343 þús-und krónur á neyslueiningu. Ef miðgildið í neðsta tekjufimmtungi er fært yfir á pör með tvö börn yngri en 14 ára myndu heildartekjur þeirrar fjölskyldu reiknast sem 720 þúsund krónur á mánuði.
Fimmta hæsta hlutfall heimila í efsta tekjufimmtungi á landinu er í Kópavogi
Ef litið er til sveitarfélaga var hæst hlutfall heimila í efsta tekjufimmtungi á Seltjar-narnesi (34,0%) og í Garðabæ (33,4%), en Kópavogur var í fimmta sæti með 24,3%. Lægst hlutfall heimila í efsta tekjufimmtungi var í Þingeyjarsveit og Húnaþingi vestra. Nokkrar breytingar eru þó frá manntalinu 2011 og 2021 þar sem Kópavogsbúum fjölgar í efsta tekjufimmtungi um 0,7%, fer úr 23,6% í 24,3% en þetta hlutfall lækkar bæði á Seltjarnarnesi og í Garðabæ og milli þessar ára, lækkar m.a. um heil 2% á Seltjarnarnesi.