Tilkynningarhnappur í spjaldtölvur, geðræktarhús, mælaborð barna, umhverfisverkefni, barnaþing og ungmennaráð er meðal verkefna sem litið hafa dagsins ljós í tengslum við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Kópavogi.
Aðgerðir í þágu barna
„Hér var unnin ítarleg greiningarvinna á högum og aðstæðum barna sem aðgerðir okkar í þágu barna byggja á og ég er afar stoltur af því að Kópavogsbær hafi innleitt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hversu mikinn metnað við höfum lagt í innleiðinguna,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
„Meðal verkefna sem spruttu upp úr þessari vinnu eru mælaborð barna, sem gefur yfirlit um heilsu og líðan barna í bænum. Mælaborðið auðveldar okkur að ákvarða hvernig við ráðstöfum fjármagni í þágu barna með réttindi barna að leiðarljósi,“ bætir hann við.
Kópavogsbær fékk nýverið afhenta viðurkenningu í tilefni innleiðingarinnar. Þau Birna Þórðardóttir, framkvæmdastjóri UNICEF, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra afhentu viðurkenninguna og Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Ingunn Sif Isorena Þórðardóttir og Eiríkur Örn Beck, sem setið hafa í stýrihóp innleiðingarinnar hjá Kópavogsbæ, tóku við henni fyrir hönd bæjarins að viðstöddum hópi starfsmanna sem komið hafa að innleiðingunni, fulltrúum ungmennaráðs og fleiri góðra gesta.
Uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi
Með viðurkenningunni er Kópavogur kominn í hóp Barnvænna sveitarfélaga, en hugmyndafræði þeirra byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum. Verkefnið er samstarfsverkefni UNICEF og félagsmálaráðuneytisins.
Unnið hefur verið að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2018 en bæjarstjórn Kópavogs samþykkti í maí það ár að innleiða Barnasáttmálann hjá bænum.