75 ára afmæli Kópavogsskóla var haldið 12. janúar síðastliðinn, en undirbúningur afmælisdagsins hófst með nemendum á þemaviku þar sem nemendur unnu ýmis verkefni til að hafa til sýnis á opnu húsi sem var á afmælisdaginn.
1.og 2. bekkur voru með verkefni sem nemendur í þeirra árgangi eru að vinna í skólanum eins og hann er í dag. Aðrir árgangar fengu úthlutuð tímabil innan starfstíma Kópavogsskóla og áttu að draga fram þann anda sem var í þjóðfélaginu á þeim tíma. Einnig var unnið vegglistaverk og saminn skólasöngur í tilefni þessa tímamóta. Áhugi nemenda og tilhlökkun að sýna gestum sína vinnu var gífurlegur og mátti sjá áhugasama og brosandi nemendur út um allan skóla.
Þegar afmælisdagurinn rann upp hittust allir nemendur og starfsmenn skólans í sal skólans um morgunin og sungu afmælissönginn fyrir skólann og nýja skólasönginn, en Skarphéðinn Hjartarson tónmenntarkennari samdi hann. Eftir sönginn fengu allir nemendur og starfsmenn köku og mjólk.
Lokahönd fyrir opið hús var síðan unnin og kl. 11 snæddu allir nemendur og starfsmenn hamborgara. Klukkan 12 fóru síðan gestir að koma í hús. Þá var opið inn í stofur þar sem nemendur voru með verkefni sín til sýnis. Einnig fluttu nemendur skólasönginn fyrir gesti og 10. bekkur var með kaffi og vöfflusölu í fjáröflunarskini fyrir útskriftarferð. Það er óhætt að segja að það hafi verið þreyttir og glaðir nemendur sem fóru heim eftir þennan dag og skemmtilega viku.

