Kópavogskirkja fagnar 60 ára vígsluafmæli

Kópavogskirkja er ein af helstu kennileitum Kópavogs og margir sem þangað hafa leitað í gleði og sorg frá því kirkjan var vígð þann 16. desember árið 1962. Hún var lengi eina kirkja bæjarins og fagnar nú 60 ára vígsluafmæli. Á Kársnesinu búa nú yfir 6000 íbúar og nemendum Kársnesskóla fer ört fjölgandi en Kópavogskirkja er kirkja Kársnessafnaðar. Vígðir þjónar Kópavogskirkju eru þau  Sr. Sigurður Arnarson, sóknarprestur kirkjunnar (síðan 1. desember 2009) vígðist, sem prestur árið 1995. Hann þjónaði áður í Grafarvogi og sem sendiráðsprestur í London í Englandi. Sr. Sigurður lauk starfsréttindanámi sjúkrahúsprests frá Bandaríkjunum. Frá ágúst síðastliðnum þjónar einnig söfnuðinum sr. Grétar Halldór Gunnarsson, sem vígðist árið 2016 og hefur þjónað í Grafarvogi og á Ísafirði.  Sr. Grétar Halldór er með meistarapróf frá Princton seminary í Bandaríkjunum og doktorspróf í guðfræði frá Edinborgarháskóla.  Ásta Ágústsdóttir vígðist árið 2011, sem djákni til Kópavogskirkju og er fyrsti djákni kirkjunnar.  Ásta hefur lokið diplómanámi í sálgæslufræðum við Háskóla Íslands og er formaður hópslysanefndar Þjóðkirkjunnar.

Afmælinu fagnað með hátíðarmessu 18. desember kl. 11

,,Afmæli kirkjunnar er stór viðburður og við fögnum því á hátt sem viðeigandi er fyrir kirkju eins og Kópavogskirkju. Mikil hátíðardagskrá hefur einkennt aðventuna á þessu afmælisári, með glæsilegu aðventukvöldi, fjölskylduguðsþjónustu og jólaballi. Nær sú dagskrá hápunkti sínum 18. desember. Þá er Hátíðarmessa kl. 11.00 í Kópavogskirkju þar sem biskup prédikar og fólk úr samtíð og sögu safnaðarins tekur þátt í messunni. Eftir messu fögnum við afmælinu áfram í safnaðarheimilinu Borgum. Gestir þiggja veitingar, við heyrum Brynju Sveinsdóttir leggja út af kirkjugluggum Gerðar Helgadóttur og fólki gefst þá einnig kostur á að skoða yfirlitssýningu sem miðlar í senn sögu og framtíð Kópavogskirkju,” segir sr. Grétar Halldór.

Kirkja Kópavogsbúa! Hratt fjölgaði í Kópavoginum, og fyrstu 30 árin var hún eina kirkjan í bæjarfélaginu. Það eru því margir Kópavogsbúar sem ólust upp við að Kópavogskirkja var “kirkjan þeirra.” Í Kópavogskirkju eru Kópavogsbúar bornir til skírnar, þar fermast þeir, giftast, og fylgja sínum látnu til grafar.  Á  myndinni eru Kópavogsbúar sem voru í fyrsta fermingarhóp Kópavogskirkju. Myndin var tekin á 50 ára vígsluafmæli kirkjunnar.

Kópavogssöfnuður þjónaði ekki einungis Kópavogi heldur líka Bústaðahverfinu

Í upphafi bjuggu um 1000 manns í Kópavogssókn og einn prestur þjónaði segir sr. Sigurður: ,,Í dag er Kópavogur stærsta bæjarfélag landsins með fjórar þjóðkirkjur, átta þjónandi presta, tvo djákna og fjölmarga aðra aðila, sem koma að safnaðastarfi á ýmsan hátt og auk þess margir sjálfboðaliðar. Fyrst þjónaði Kópavogsöfnuður, sem stofnaður var árið 1952 ekki einungis Kópavogi heldur einnig Bústaðahverfinu en það breyttist með tilkomu Bústaðasóknar. Árið 1971 var Kópavogskirkja kirkja Kársness og Digranessafnaðar en svo breyttist það með tilkomu Digraneskirkju. Í dag er í Kársnessöfnuði boðið upp á: reglulegt helgihald flestar helgar ársins og er það útfært á ýmsu vegu, starf fyrir börn í 1-3 bekk, sunnudagsskóla, fermingarfræðslu, æskulýðsstarf fyrir 8. bekk, Kór Kópavogskirkju æfir reglulega og tekur þátt í helgihaldinu með ýmsum hætti, fyrirbænarstundir eru vikulega, Mál dagsins hittist viklulega þar sem sungið er saman undir stjórn og undirleik og erindi flutt um ýmisleg málefni líðandi stundar, Prjónahópur hittist tvisvar í mánuði, bænahópur vikulega, um 20 sorgarhópar hafa verið starfræktir hér síðan árið 2011, árlegt Kirkjuhlaup á aðventu í samvinnu við Hlaupahóp Breiðabliks og áfram mætti telja.”

Mikill kraftur og aukin þátttaka í safnaðarstarfinu

Ásta, djákni segir: ,,Við höfum fundið fyrir miklum krafti og aukinni þátttöku í öllu okkar safnaðarstarfi frá því í haust.  Það má ætla að það sæki milli 250 og 300 manns okkar reglubundna starf í hverri viku. Sama hvort litið er til barna- eða fullorðinsstarfs, sem er afar ánægjulegt.   Það er okkar upplifun að það sé mikill velvilji og hlýhugur til Kópavogskirkju og fengum við til dæmis: nýlega verk frá Pétri Geir, ungum listamann en verkið er undir áhrifum frá verki Gerðar Helgadóttur í kirkjunni.  Sóknarbörn og fleiri hafa áhuga á kirkjunni sinni og er annt um hana, hefur það sýnt sig í þeim verkefnum sem við höfum staðið í varðandi viðgerðir og endurbætur á undanförnum árum.  Það var ekki óalgengt að vera spurður um framgang endurbóta. Kársnessöfnuður er með minnstu söfnuðum höfuðborgarsvæðisins og það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur sú uppbygging sem á sér stað á Kársnesinu.  Það eru fjölmargir sem koma að starfinu í hverri viku og ef allt er talið koma á fjórða tuga með einum eða öðrum hætti og meirihlutinn í sjálfboðaliðsstarfi.”  

Forsíðumynd: Á þessari mynd má sjá stóran hluta af prestum, starfsfólki, sóknarnefnd og sjálboðaliðum á 60 ára afmælisári Kópavogskirkju. Frá vinstri: Friðrik Kristinsson, Anna María María Hákonardóttir, Grímur Sigurðssonson, Brynjar Guðmundsson, Hannes Sigurgeirsson, Eva Sigurðardóttir, Guðrún Lilja Eysteinsdóttir, Salóme Pálsdóttir, Ragnar Guðmundsson Kristín Líndal, Hlíðar Þór Hreinsson, Elvar Bjarki Helgason,
Ingibjörg Valgeirsdóttir, Jóhanna Baldursdóttir, Lenka Mátéová, Ásta Ágústsdóttir, Ragna Karlsdóttir, Guðmundur Jóhann Jónsson, Björg Eiríksdóttir, Benedikt Vilhjálmsson, sr. Sigurður Arnarson og sr. Grétar Halldór Gunnarsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar