Kópavogsbær var sýknaður af öllum fjárkröfum í dómi Landsréttar í máli nr. 549 /2023, Vatnsendamáli.
Hinn 28. maí 2018 var Kópavogsbæ birt stefna af hálfu Þorsteins heitins Hjaltested, þáverandi ábúanda jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi. Í málinu krafðist stefnandi þess að Kópavogsbær greiddi honum frekari eignarnámsbætur vegna eignarnáms bæjarins á landi úr Vatnsenda árið 2007. Aðalkrafa stefnanda var um greiðslu úr hendi Kópavogsbæjar að fjárhæð 5.631.000.000 kr. Jafnframt krafðist stefnandi viðurkenningar á skyldu Kópavogsbæjar til að greiða stefnanda skaðabætur vegna tapaðra árlegra leigutekna af 300 lóðum undir sérbýli á grundvelli eignarnámssáttar frá 30. janúar 2007, svo og viðurkenningar á tilteknum öðrum skyldum Kópavogsbæjar, sem voru óumdeildar í málinu. Málið var þingfest 30. maí 2018. Undir rekstri málsins tók sonur Þorsteins, Magnús Pétur Hjaltested, við aðild málsins til sóknar ásamt dánarbúi Þorsteins.
Dómur í málinu var kveðinn upp í Landsrétti í dag.
Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða héraðsdóms um viðurkenningu á því að Kópavogsbæ bæri að inna af hendi eftirfarandi skyldur, sem voru óumdeildar í málinu:
- Skipuleggja byggingarreit undir fjögur einbýlishús ásamt byggingarreit fyrir skemmu og hesthús í heimalandi Vatnsendabýlis.
- Skipuleggja fjórar lóðir sem komi í stað lóðarinnar Vatnsendablettur 134.
- Skipuleggja tvær lóðir sem komi í stað lóðarinnar Vatnsendablettur 241a.
- Veita Magnúsi Pétri Hjaltested einkaafnotarétt til haustbeitar fyrir sauðfé innan Lækjarbotnalands frá Fossvallarétt og ofan hennar.
- Greiða kostnað við stofnun lóða í heimalandi Vatnsendabýlis, á Vatnsendabletti 134 og á Vatnsendabletti 241 og við þinglýsingu leigusamninga vegna sömu lóða.
Kópavogsbær var hins vegar sýknaður af öllum öðrum kröfum aðaláfrýjanda, þ.e. bæði fjárkröfu og kröfu um viðurkenningu á skyldu til greiðslu skaðabóta vegna tapaðra árlegra leigutekna. Málskostnaður fyrir héraði og Landsrétti var látinn falla niður.
Mynd: Vatnsendabýli. Í niðurstöðu dómsins kemur m.a. fram að Kópavogsbær skipuleggi byggingarreit undir fjögur einbýlishús ásamt byggingarreit fyrir skemmu og hesthús í heimalandi Vatnsendabýlis.