Landsréttur kvað í síðustu viku upp dóm í svokölluðu Vatnsendamáli, þar sem Kópavogsbær var sýknaður af öllum fjárkröfum sem gerðar voru á hendur bænum. Málið snerist um kröfur dánarbús Þorsteins Hjaltested og sonar hans, Magnúsar Péturs Hjaltested, um frekari eignarnámsbætur og skaðabætur vegna tapaðra leigutekna eftir eignarnám Kópavogsbæjar á landi úr Vatnsenda árið 2007.
Stefnendur kröfðust rúmlega 5,6 milljarða króna í greiðslu frá Kópavogsbæ, auk þess að fá viðurkennda skaðabótakröfu vegna tapaðra leigutekna af 300 lóðum undir sérbýli. Með dómi Landsréttar var hins vegar staðfest að Kópavogsbær hefði ekki skyldu til að greiða þessar fjárkröfur.
Bæjaryfirvöld hafa staðið rétt að málum
Dómurinn er mikilvægur fyrir bæjarsjóð Kópavogs þar sem hann ver bæinn fyrir verulegri fjárhagslegri skuldbindingu. Ef krafa stefnenda hefði náð fram að ganga, hefði það haft veruleg áhrif á fjárhag sveitarfélagsins og mögulega kallað á hærri álögur á bæjarbúa. Með sýknu bæjarins er staðfest að bæjaryfirvöld hafi staðið rétt að málum varðandi eignarnámið á sínum tíma.
Hins vegar ber Kópavogsbæ að uppfylla ákveðnar skyldur sem voru óumdeildar í málinu, svo sem að skipuleggja tiltekin lóðarsvæði og tryggja einkaafnotarétt til haustbeitar fyrir sauðfé á ákveðnu landi.
Lokaniðurstaða
Með þessum dómi fær Kópavogsbær staðfest að hann þurfi ekki að greiða umdeildar fjárkröfur, sem er jákvætt fyrir bæinn og bæjarbúa. Jafnframt fær bæjarfélagið ákveðna skýrleika um skyldur sínar varðandi skipulag og afnot af landi. Þetta er því stór áfangi í langri sögu málsins og gefur Kópavogsbæ svigrúm til að halda áfram með skipulag og uppbyggingu í sveitarfélaginu á traustum lagalegum grunni.
Þess má geta að málskostnaður fyrir bæði héraðsdóm og Landsrétt var látinn falla niður, sem þýðir að hvorugur aðili þarf að greiða lögfræðikostnað hins.
Kópavogspósturinn heyrði í Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra í Kópavogi sem var eðlilega létt þegar hún fékk niðurstöðu Landsréttar í hendurnar.
Dómnum gæti verið áfrýjað
En hvernig metur hún mikilvægi þessarar niðurstöðu fyrir Kópavogsbæ? ,,Niðurstaða Landsréttar er góð fyrir Kópavogsbæ. Ekki liggur fyrir hvort dómnum verði áfrýjað af hálfu stefnanda og því tel ég ekki tímabært að tjá mig um gildi niðurstöðunnar fyrr en vitað er að hún sé endanlega,“ segir hún.
Hvað hefði það í raun þýtt fyrir bæinn fjárhagslega ef dómurinn hefði fallið stefnendum í vil? ,,Ef niðurstaða Landsréttar hefði verið sú sama og héraðsdóms þá hefði Kópavogsbær komið til með að greiða ábúenda Vatnsenda ríflega tvo milljarða í skaðabætur að meðtöldum vöxtum.“
Er Kópavogsbær búinn að gera ráðstafanir í fjárhæagsáætlun bæjarins ef niðurstöður hefðu eða verða dánarbúinu í vil ef það verður áfrýjað? ,,Já, Kópavogsbær hefur gert ráð fyrir þessu í bókum bæjarins.“
En hefur þessi langa málsmeðferð haft einhver áhrif á störf bæjarins og bæjarsjóð? ,,Öll óvissa er slæm og vissulega hefur fylgt þessu máli nokkur kostnaður en þó ekki þannig að það hafi haft afgerandi áhrif á bæjarsjóð eða störf bæjarins. Nú horfum við vonandi til lands í þessu máli sem ég held að sé léttir fyrir alla aðila.“
Getum tekið samtalið upp að nýju
Dómurinn kveður á um skyldu bæjarins til að skipuleggja tilteknar lóðir og veita afnotarétt á landi. Hefur bærinn þegar hafið vinnu við skipulag þessara lóða, eða er þetta eitthvað sem nú verður unnið í ljósi niðurstöðunnar? ,,Bærinn hefur alla tíð haft fullan hug á að hefja skipulag á þessu svæði sem talað er um sem C og G í sáttinni. Þannig beitti bærinn sér fyrir því að vatnsvernd væri aflétt af hluta svæðisins á árinu 2015. Vatnsverndarkvöð er þó enn á hluta svæðisins. Ábúandi sætti sig ekki við þá staðreynd að ekki er unnt að skipuleggja eins margar lóðir og stefnt var að vegna vatnsverndar. Nú er málaferlum að ljúka og þá getum við tekið aftur upp þetta samtal við ábúanda en í eignarnámssáttinni er kveðið á um að aðilar skuli vinna sameiginlega að þessari skipulagsvinnu,“ segir hún og bætir við: ,,Varðandi aðrar skyldur bæjarins til skipulags minni reita þá standa þær viðræður yfir við ábúanda.“
Við erum meðvituð um áhyggjur íbúa af ástandi gatna á Vatnsenda
Er bærinn í samtali við Magnús um kaup á landi hans á Vatnsenda, neðan Fella- og Fákahvarfs? Íbúar sem þar búa greiða gjöld og skatta til Kópavogsbæjar en bærinn hefur vísað á landeiganda þegar kemur að viðhaldi gatna. ,,Engin slík kaup hafa verið rædd enda er ábúanda samkvæmt ákvæðum erfðarskrárinnar sem hann byggir afnotarétt sinn til jarðarinna á óheimilt að selja land. Því getur Kópavogsbær ekki eignast meira af landi Vatnsenda nema með eignarnámi. Ekki hefur komið til tals að fara út í slíkt,“ segir hún og heldur áfram: ,,Við erum meðvituð um áhyggjur íbúa af ástandi gatna en sá hluti gatna sem liggja á landi bóndans eru á hans ábyrgð að viðhalda. Við munum vonandi nú þegar sér fyrir enda á þessum ágreiningi um eignarnámssáttina geta sest niður og gengið frá samkomulagi við bóndann um viðhald gatna og uppbyggingu göngustígs í kringum vatnið, en það er draumur minn sem bæjarstjóri að Kópavogsbúar geti notið útivistar í kringum þetta dásamlega vatn sem Elliðavatn er,“ segir Ásdís að lokum.
Mynd: Vatnsendabýli