Kópavogsbær og Mussila skrifa undir samning

Stafræn tónlistarkennsla í Kópavogi

Kópavogsbær og nýsköpunarfyrirtækið Mussila ehf. hafa skrifað undir samning þess efnis að öll börn á öðru og þriðja ári í Kópavogsbæ fái aðgang að stafrænni tónlistarkennslu í skólaútgáfu Mussila.

Mussila er margverðlaunað íslenskt tónlistarforrit hannað fyrir börn sem eru byrjendur í tónlist þar sem leikjanálgun er notuð til að kenna grunnatriði í tónfræði, nótnalestri og hljóðfæraleik á skemmtilegan og hvetjandi hátt. Smáforritið byggir á þremur kjarnaþáttum að læra, leika og skapa þar sem barnið leysir skemmtileg verkefni og tónlistarþrautir.

Rafrænn tónlistarskóli

„Mussila gerir okkur kleift að bjóða öllum börnum í 2. og 3. bekk að sækja rafrænan tónlistarskóla. Tónlistarkennarar hafa tekið skólaútgáfu Mussila fagnandi og það skemmir ekki að þau fá að heimsækja hljóðfæraleikarana í Hörpu sem spila í appinu og tengja þannig appið við raunveruleikann. Svo finnst mér mikill kostur að appið er íslenskt hugvit og að viðmótið er á mörgum tungumálum. Það auðveldar öllum foreldrum að aðstoða börn sín við tónlistarnámið í Mussila“ segir Bergþóra Þórhallsdóttir verkefnastjóri í upplýsingartækni í skólastarfi hjá Kópavogsbæ.

Hugvitið sem Kópavogsbær kaupir af Mussila byggir á stjórnborði sem veitir tónlistarkennurum fjöldaaðgangsstýringu og um leið yfirsýn yfir notkun nemenda í forritinu. Tilgangurinn með verkefninu er að koma til móts við kennara, nemendur og foreldra og hjálpa þeim að takast á við breytt umhverfi í skólum og uppfylla þörfina fyrir stafrænt námsefni og auka aðgengi allra barna að tónlistarnámi.

Kópavogsbær til fyrirmyndar

„Kópavogsbær er til fyrirmyndar þegar kemur að upplýsingatækni í skólstarfi og það er okkur hjá Mussila sönn ánægja að innleiða forritið okkar fyrir Kópavogsbæ. Undanfarna mánuði höfum við í Mussila selt einstaka skólum víða um heim aðgang að skólaaðganginum. Þessi samningur markar tímamót þar sem heilt sveitarfélag kaupir aðgang fyrir alla skólana í sinni umsýslu. Okkar draumur er að gera samskonar samning við sem flest sveitafélög á Íslandi. Markmið Mussila er að auka aðgengi allra barna að hágæða stafrænni menntun. Þessi samningur er liður í þeirri vegferð“ segir Jón Gunnar Þórðarson framkvæmdastjóri Mussila.

Á myndinni eru Bergþóra Þórhallsdóttir verkefnastjóri í upplýsingartækni í skólastarfi hjá Kópavogsbæ og Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Mussila. Mynd: Birgir Ísleifur Gunnarsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar