Kópavogsbæ ber að greiða Magnúsi Pétri Hjaltested, 1.400.000.000 króna ásamt vöxtum

Hinn 28. maí 2018 var Kópavogsbæ birt stefna af hálfu Þorsteins heitins Hjaltested, þáverandi ábúanda jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi. Í málinu gerði stefnandi þær dómkröfur að Kópavogsbær greiddi honum frekari eignarnámsbætur vegna eignarnáms bæjarins á landi úr Vatnsenda árið 2007. Aðalkrafa stefnanda var að fjárhæð kr. 5.631.000.000 og til viðbótar var gerð krafa um viðurkenningu á tilteknum réttindum sem byggt er á að leiði af eignarnámssátt frá 30. janúar 2007. Málið var þingfest 30. maí 2018. Undir rekstri málsins tók tók sonur Þorsteins, Magnús Pétur Hjaltested, við aðild málsins til sóknar ásamt dánarbúi Þorsteins.

Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Samkvæmt dóminum ber Kópavogsbæ að greiða Magnúsi Pétri Hjaltested, 1.400.000.000 króna ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. janúar 2013 til 7. júlí 2023 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá var viðurkennd skylda Kópavogsbæjar til að greiða skaðabætur vegna tapaðra árlegra leigutekna af 300 lóðum undir sérbýli í landi Vatnsenda.

Loks var viðurkennt að Kópavogsbæ bæri að inna af hendi eftirfarandi skyldur:

  1. Skipuleggja byggingarreit undir fjögur einbýlishús ásamt byggingarreit fyrir skemmu og hesthús í heimalandi Vatnsendabýli
  2. Skipuleggja fjórar lóðir sem komi í stað lóðarinnar Vatnsendablettur 134.
  3. Skipuleggja tvær lóðir sem komi í stað lóðarinnar Vatnsendablettur 241a.
  4. Að veita Magnúsi Pétri einkaafnotarétt til haustbeitar fyrir sauðfé innan Lækjarbotnalands frá Fossvallarétt og ofan hennar.
  5. Greiða kostnað við stofnun lóða í heima­landi Vatnsendabýlis, á Vatnsendabletti 134 og á Vatnsendabletti 241.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar