Katrín Jakobsdóttir

Við forsetakosningarnar 1. júní n.k. munum við velja forseta sem sitja mun á Bessastöðum a.m.k. næstu 8 árin ef sagan segir okkur eitthvað.  Það eru margir frambjóðendur nú eins og síðast þegar kosningar fóru fram í kjölfar þess að sitjandi forseti ákvað að bjóða sig ekki fram.  Katrín Jakobsdóttir er nú í framboði eftir farsælan feril á vettvangi stjórnmálanna.  Þar hefur hún sýnt að hún býr yfir þeim hæfileikum sem mikilvægir eru þeim sem sækjast eftir að vera í forystu í nútímasamfélagi. Það hlusta fáir betur en hún, það eru fáir sem greina kjarnann frá hisminu með betri hætti og fáir sem búa yfir þeim eiginleikum að geta greint aðstæður og tekið ákvarðanir með hag fjöldans að leiðarljósi. Allt þetta hefur Katrín gert í tveimur þeim ríkisstjórnum á Íslandi sem hafa tekist á við erfiðustu verkefni síðustu áratuga þ.e. afleiðingar hrunsins og Covid faraldurinn. Engin sem ég þekki til á auðveldara með að leiða fólk saman og ná góðum lendingum við erfiðar aðstæður.  Þannig forseta vil ég á Bessastaði og þannig forseti skiptir okkur öll miklu máli.  Forseti sem veit að án þátttöku okkar allra í að byggja upp samfélag verður samfélagið veikara. Forseta sem skilur og veit að kjarninn í því sem gerir okkur að þjóð er íslensk menning, íslensk tunga og sú samfélagshugsun sem er svo rík með þjóðinni. Forseti sem hefur sýnt það að hún getur komið þessum skilaboðum á framfæri um allan heim og hefur gert það svo eftir er tekið.  Forseti sem vill hlusta og getur verið sameiningarafl.  Þess vegna vil ég Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forseta Íslands.

Margrét Friðriksdóttir, f.v. skólameistari MK og f.v. forseti bæjarstjórnar Kópavogs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar