Kársnes „miðstöð nýsköpunar og tækniþróunar á Íslandi“

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs var haldinn föstudaginn 2. september sl. að Hótel Kríunesi við Vatnsenda.
Á fundinum var kynnt ný viðskiptaáætllun um uppbyggingu á öflugu nýsköpunarsetri og stofnun hátækniklasta á Kársnesi samhliða auknu samstarfi við háskólasamfélagið. Sigríði Ingvarsdóttir fyrrum forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands var fengin til að vinna tillögur að stefnumótun fyrir uppbyggingu nýsköpunarseturs í Kópavogi í samstarfi við framkvæmdastjóra Markaðsstofunnar, sem rekið hefur atvinnu- og nýsköpunarsetrið Skóp frá aprílmánuði 2021.

Í viðskiptaáætluninni er lögð til tveggja þrepa áætlun í átt til stækkunar Atvinnu- og nýsköpunarsetursins Skóp og eflingu starfsins.

Í fyrsta lagi eins árs áætlun sem tekur mið af því að auka það húsnæðisrými sem setrið býður upp á, auka samstarf við hina ýmsu aðila til eflingar starfseminni og tryggja fjárhagslegan grundvöll setursins til næstu þriggja ára.

Í öðru lagi þriggja ára áætlun sem miðar að því að starfsemi Skóp, nýsköpunarseturs Kópavogs verði byggð upp á Kársnesinu og að samhliða verði byggð upp framsækin miðstöð tækniþróunar á Íslandi auk hátækniklasa, í nánu samstarfi við háskólasamfélagið og tæknifyrirtæki. Stefnt verður að því að Tæknisetur ehf. (áður tæknisetur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands) flytji frá Keldnaholti inn í þetta nýsköpunar-samfélag. Með fyrirhugaðri brú yfir Fossvoginn er þetta svæði komið í beina tengingu við háskólasvæði Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Borgarlína mun síðan tryggja góðar samgöngur við Kársnesið.

Þessi tveggja þrepa áætlun og þau áhersluatriði sem þar koma fram fara vel saman við þær áherslur sem birtast í málefnasamningi nýs bæjarstjórnarmeirihluta í Kópavogi um eflingu nýsköpunar í bæjarfélaginu, en þar er kveðið á um að skoðuð verði uppbygging á Nýsköpunarsetri Kópavogs, stofnun hátækniklasa og samstarf við háskólana verði aukið. Einnig eru ýmsar aðrar opinberar áherslur og sóknarfæri sem styðja vel við þessa áætlun sem finna má á heimasíðunni www. markadsstofakopavogs.is

,,Markaðsstofa Kópavogs óskar eftir frekara samtali við kjörna fulltrúa bæjarfélagsins um þessar hugmyndir segir,” Björn Jónsson framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs.

Mynd: Helga Hauksdóttir fráfarandi stjórnarformaður og Kristín Amy Dyer nýr formaður stjórnar Markaðsstofu Kópavogs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar