Það eru að koma jól, og ég trúi því að jólin séu okkur gefin til að staldra við. Jólin stækka upplifanir okkar, í sorgarvinnu er stundum sagt að stólinn sé aldrei eins auður og á jólunum Við söknum og syrgjum en reynum líka að muna að sorgin er yfir því sem áður gladdi og við erum þakklát fyrir. Samkenndin er sterk á aðventunni og hjálparsamtök fá aldrei jafmiklar gjafir og í desember.
Sönglagatextar á borð við: ,,Gleymdu ekki þínum minnsta bróður“ og ,,Mundu að þakka Guði, gjafir frelsi og frið. Þrautir raunir náungans víst koma okkur við“ hljóma í útvarpinu.
Kærleikur, góð verk og samkennd eru kjarninn í boðskap frelsarans sem jólin sem fæðingarhátíð snúast um.
Mig langar að deila með ykkur stuttu ljóði sem ég rakst á í aðdraganda jóla fyrir nokkrum árum.
Ljóðið opnaði augu mín fyrir því að englar eru víða og við gefum ef til bestu jólagjafirnar með því að hafa frumkvæði að heyra í fólki og sýna kærleika. Þannig göngum við á Guðs vegum og erum sendiboðar kærleikans.
Um leið og ég óska þér, Guðs blessunar, gleðilegra jóla og farsæls nýs langar mig að deila þessu ljóði með þér:
Englar jólanna
Ég verð að segja ykkur frá englum jólanna,
þessum sem hvorki hafa vængi né geta svífið um loftin.
Þeir eru margir.
Ég veit um einn sem mokaði snjóinn á tröppunum hjá okkur eitt vetrarkvöldið.
Og aðra sem kom óvænt með svo fallegt og einlægt bréf.
Hún hafði glaðvært blik í augum sér.
Einu sinni talaði ég við engil í símann
og hugarástandið breyttist:
úr dimmu í dagsljós.
Englar eru sendiboðar kærleikans.
Og maður verður að trúa að þeir séu til.
Sérstaklega á jólunum
Kannski ert þú sjálf(ur) engill
Eða gætir alla vega orðið það.
Guðni Már Harðarson prestur í Lindakirkju