Við vitum öll að eitt af því mikilvægasta fyrir hverja fjölskyldu er að eiga samastað. Að hafa þak yfir höfuðið skiptir gríðarlega miklu mál þegar kemur að öryggi og vellíðan og er því í mínum huga eitt af því mikilvægasta sem bæjarfélag ætti að huga að.
Síðastliðin ár hefur Kópavogur staðið framar öðrum sveitarfélögum þegar kemur að uppbyggingu nýrra hverfa, þrátt fyrir að land sé að einhverju leyti takmarkað.
En við ætlum að gera enn betur svo unga fólkið okkar þurfi ekki að leita á aðrar slóðir.
Að byggja íbúðir fyrir ungt fólk er því mikilvægt, en eins og staðan á fasteignamarkaði er í dag þá er það hægara sagt en gert fyrir fólk sem er að stíga sín fyrstu skref að fjárfesta í sinni fyrstu íbúð. Íbúðir eru dýrar og ásókn í hverja eign er mikil af fjársterkari aðilum.
Eins og staðan er í dag, þá er í öllum Kópavogi 47 íbúðir til sölu og við þurfum að flýta framkvæmdum/uppbyggingu eins og hægt er. Við Kópavogsbúar getum einungis byggt um fjögur þúsund íbúðir á næstu átta árum til dæmis á svæðum eins og Glaðheimum, Vatnsenda, Hamraborg og eitthvað á Kársnesi. Eftir að því lýkur er eina leiðin til að byggja meira sú að kaupa land sem liggur nálægt Kópavogi af öðrum sveitarfélögum.
Það þýðir að næsta bæjarstjórn þarf að vanda gríðarlega til verka þegar kemur að því að ákveða hvernig íbúðir á að byggja og fyrir hverja.
Það þarf að byggja íbúðir fyrir fólkið sem byggði upp þennan bæ, 60 ára og eldri og hægt að byggja fjölbýlishús með sambærilegri þjónustu og í Gullsmára. Skortur á á þannig íbúðum er gríðarlegur og sést best á því að engin svoleiðis íbúð er til sölu og ef hún kemur í sölu þá fer hún strax því margir um hverja eign.
Að sama skapi getur ungt fólk ekki keypt íbúðir í Kópavogi og þarf að flytja í hverfi/bæjarfélög þar sem íbúðarverð er lægra og það viljum við ekki.
Kópavogur getur lagað þetta, við getum byggt ódýrari íbúðir fyrir ungt fólk. Við gætum til dæmis útvegað lóðir á góðum kjörum, byggt eins einfalt fjölbýlishús og hægt er, samið fyrir fram við verktaka um hversu dýrar íbúðirnar mega vera og einnig sett skilmála, að einungis ungt fólk geti keypt í þessum húsum. Það eru sambærilegar kvaðir á fjöldamörgum húsum þar sem kaupendur verða að vera 60 ára eða eldri.
Við getum gert einmitt það sama fyrir unga fólkið okkar, sett kvaðir á að kaupendur megi ekki vera eldri en 25, 30, 35 allt eftir því hver þörfin er.
Þetta er raunverulega hægt náist samstaða í bæjarstjórn.
Allt of margir Kópavogsbúar þurfa að sætta sig við að búa í foreldrahúsum lengur en vilji er fyrir vegna lítils framboðs á ódýrari og hagkvæmari íbúðum.
Ég hef starfað sem fasteignasali í átján ár. Á þeim tíma hef ég öðlast mikla reynslu og þekkingu á þessu málefni, enda mitt hjartans mál, og ég er fullviss um að mín reynsla nýtist Kópavogsbúum ef ég kemst í bæjarstjórn.
Greinahöfundur býður sig fram í 4. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.
Hannes Steindórsson fasteignasali/framkvæmdastjóri og fjölskyldumaður í Kópavogi.