Kæri íbúi við óskum eftir stuðningi þínum í komandi kosningum þann 14.mai n.k. Við í Miðflokki og óháðum erum til þjónustu reiðubúin og munum leggja okkur fram við að hlusta á ykkar raddir og hefjast handa við að efla okkar góða bæ, Kópavog. Við tökum undir öll góð mál sem við teljum bænum og íbúum hans til hagsbóta. Við höfnum gamaldags pólitísku jargoni og munum starfa í þágu allra. Við lofum ekki upp í ermina á okkur eða ykkar en nokkrar eru áherslurnar sem við viljum leggja undir ykkur í komandi kosningum.
Í fyrsta sæti. Við verðum að hækka laun leikskólakennara og leiðbeinenda. Leikskólinn er hornsteinn samfélagsins, sé þessi málaflokkur í ólestri hverfur hæfa, menntaða fólkið úr stéttinni og málaflokkurinn leggst í ólestur. Foreldrar eru í krefjandi störfum og verða að geta teyst því þessi málaflokkur sé í toppstandi. Að börnin litlu séu við bestu aðstæður. Fá mat, leik og hvíld miðaða við bestu aðstæður sem völ er á. Það færi best á því að hefja kennslu lesturs og stærðfræði strax við þriggja ára aldurinn. Biðin eftir leikskólaplássi ætti að vera engin. Við Miðflokksmenn viljum fá umboð og ábyrgð til að koma þessum málaflokki í gott lag í eitt skipti fyrir öll
Í öðru sæti forgangsins eru skólamálin. Þegar börnin okkar – einhverra hluta vegna – ná ekki að læra að lesa skrifa og reikna þá er alvarleg staða komin upp og illa komið fyrir okkar samfélagi. Við sem samfélag erum að bregðast okkar litlu skjólstæðingum og það eru svik við kjósendur sé þessi málaflokkur ekki kominn á rétt ról. Hluti vandans liggur í því að það vantar bæði fleiri þroskaþjálfa og barnasálfræðinga inná skólana til að sinna sérvandamálum svo að aðrir fái skjól til að þroskast eðlilega og á sínum hraða. Verum fagleg og umhyggjusöm.
Í þriðja lagi. Öldrunarmál. Það virðist gleymast allt of oft að tíminn vinnur ekki með okkur hvort sem okkur líkar það betur eða verr – að öll erum við að eldast. Sumir okkar eldumst hratt og illa. Aðrir eru sem betur fer seinþroska og eldast hægt. En öll eldumst við og í upphafi skal endirinn skoða. Við þurfum heilsugæslu, húsnæði, mat og félagskap. Ekki viljum við láta okkur leiðast. Maður er manns gaman þótt gamall sé. Samfélagið á að bera þá gæfu að uppfylla okkar þarfir – já að hafa hugmyndaflug hvernig betur megi fara að auka lífsánægju okkar eldri samborgara. Sum okkar missum andlega heilsu og getum ekki rekið okkar heimilishald lengur. Aðstandendur ættu ekki að þurfa að snúa sínu lífi á hvolf til að sinna sínum nánustu þar sem að samfélagið hefur verið úrræðalítið að taka við okkur þegar heilsan okkar og jafnvel fjárhagurinn hefur brugðist okkur. Hnýtum okkur gott öryggisnet og tökum vel á móti hvort öðru er ævikvöldið ber að dyrum.
Í fjórða lagi þá viljum við doka við og endurhugsa núverandi hugmyndafræði Borgarlínu, sem er alltof dýr, ófjármögnuð og mun valda miklu raski innan okkar bæjarmarka sem fáir vilja. Við viljum samgöngur fyrir alla, betri strætó og kanna til þaula áhuga á að nota hann með því að hafa hann gjaldfrjálsan.
Kæri íbúi, til þjónustu reiðubúin.
Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi og oddviti Miðflokks og óháðra.
Geir Ólafsson, söngvari og skipar annað sætið á lista Miðflokks og óháðra.