Jólastemming í náttúrunni í Jólalundi

Jólalundurinn er opnaður í Guðmundarlundi en þetta er í fyrsta skipti sem Kópavogsbær býður gestum inn í Guðmundarlund með þessum hætti. Alla sunnudaga í aðventunni verða meðlimir úr íslensku jólafjölskyldunni frá kl. 13 – 15 á staðnum og bjóða upp á jólaball, spurningakeppni og margt fleira.  

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs,  heimsótti Jólalundinn með fjölskyldu sinni sl. sunnudag og var mjög hrifin.  ,,Það er okkur mikið gleðiefni að geta boðið gestum upp á nærandi samveru á þessum yndislega stað sem Guðmundarlundur er. Hópurinn sem stendur að viðburðinum hefur náð að skapa einstaka stemmingu í fullkomnu samspili við náttúruna. Mikil spenna myndaðist hjá mínu fólki að ráða gátuna í ratleiknum og höfðum við fullorðna fólkið vart undan að fylgja eftir. Sjálfri fannst mér jólaballið vera hápunkturinn, hún Rófa er þeimgáfum gædd að vekja bæði lukku hjá ungum jafnt sem öldnum. Ég hvet því alla að heimsækja Jólalundinn, fá jólastemminguna beint í æð í ferska loftinu,“ segir Ásdís.

Anna Bergljót Thorarensen fer fyrir hópnum sem stendur að viðburðinum en þau eru einnig með leiksýninguna Ævintýri í Jólaskógi sem nú er sett upp í 4 árið í röð í Guðmundarlundi.  ,,Áhorfendur eru hvattir til að klæða sig eftir veðri og koma vel skóaðir. Segir hún aðspurð um hvað þarf til að koma í Jólalundinn. Við vitum aldrei hvernig veðrið verður en við vorum einstaklega heppin síðasta sunnudag. Við erum farin að þekkja Guðmundarlundinn ansi vel eftir að hafa verið hér síðustu ár með jólasýninguna okkar, en það er alltaf jafn gaman að vera hér. Hann Kristinn hjá Skógræktarfélaginu tekur okkur alltaf svo vel, svo eru bara svo miklir möguleikar sem felast í svæðinu. Við erum með stóra drauma um framhaldið og finnum fyrir miklum vilja frá Kópavogsbæ með áframhaldandi samstarf. Hver veit hvað gerist á næsta ári,“ segir Anna Bergljót sposk á svip. og bætir við: ,,Við hvetjum alla til þess að reima á sig útiskóna og skella sér í Jólalundinn, njóta samvista í kyrrð, ekki endilega í ró (það eru þó nokkur læti í Hurðaskelli) og upplifa jólafíling úti í náttúrunni.“  
 
Nánari upplýsingar má finna inn á meko.is 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar