Jólabasar Waldorfskólans í Lækjarbotnum

Waldorfskólinn í Lækjarbotnum og Waldorfleikskólinn Ylur halda sinn árlega jólabasar laugardaginn 16. nóvember í Lækjarbotnum.

Basarinn er uppskeruhátíð eftir vinnu haustsins og mikilvæg fjáröflun fyrir skólann og síðast en ekki síst kynning á skólanum og samfélaginu sem hann byggir á.

Óhætt er að segja að mikil eftirvænting og tilhlökkun sé hjá börnum, starfsfólki og foreldrum fyrir basarnum en frábærlega tókst til í fyrra. Basarinn er einstök upplifun og eru allir hjartanlega velkomnir og ekki er þörf að hafa tengingu inn í skólann til að koma og njóta hans og þess sem boðið verður upp á.

Meðal þess sem í boði verður eru eldbakaðar pizzur, barnakaffihús, kaffihlaðborð, brúðuleikhús, veiðitjörn þar sem yngstu börnin geta veitt eitthvað góðgæti. Einnig verður útieldhús og ýmsar aðrar upplifanir.

Síðan en ekki síst verður til sölu fallegt handverk sem skólasamfélagið hefur í sameiningu skapað. Lagt er kapp á náttúrulegan efnivið og vandað er til verka. Meðal annars verða leikföng, jólaskraut, bývax kerti og jurtasmiðju afurðir og te til sölu.

Jólabasar Waldorfskólans er frá kl. 12-17 laugardaginn 16. nóvember og er aðkoma að Lækjarbotnum frá Suðurlandsvegi. Þetta er fjölskylduskemmtun sem óhætt er að mæla með.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar