Jólabærinn Kópavogur

Í aðdraganda jóla er hægt að finna fjölda viðburða í Kópavogi sem ýmist koma fólki í jólaskap eða veita hugarró í jólaamstrinu. Meðal þess sem verður á dagskrá í desember er Jólalundur í sjálfum Guðmundarlundi þar sem boðið verður upp á sannkallaða fjölskyldudagskrá alla sunnudaga fram að jólum.  ,,Það er svo magnað að eiga þessa náttúruperlu innan bæjarmarkanna sem við viljum gjarnan nýta betur og fá fólk á staðinn til að upplifa jólin með börnunum undir berum himni. Við í Lista- og menningarráði samþykktum á dögunum að veita fjármagn til þess að halda þessa hátíð og erum vongóð um að það reynist farsæl ákvörðun,“ segir Elísabet Sveinsdóttir, formaður Lista og menningarráðs og bætir við að aðgangur sé ókeypis. 

,,Þá má einnig nefna jólatónleika í Salnum af öllum gerðum, allskonar uppákomur í Gerðarsafni, Náttúrusafninu og Bókasafninu. Meðal þess sem finna má er innpökkunaraðstaða á báðum bókasöfnunum okkar og ekki má gleyma sjálfri aðventuhátíðinni í dag, laugardaginn 2. desember,“ segir hún, en það verður heilmikið um að vera á grasbalanum við menningarhúsin, m.a. munu ævintýrapersónur úr Jólaskógi stíga á svið og jólasveinar láta sjá sig. Ljósin á jólatrénu verða tendruð klukkan 16 en aðventudagskráin hefst klukkan 13. Best er að skoða meko.is þar sem allir jólaviðburðirnir í bænum eru útlistaðir.

,Hægt verður að kaupa ljúfar veitingar hjá Krónikunni í Gerðarsafni og í forsal Salarins en þar verður jólamarkaður með fallegu handverki frá Hlutverkasetri, Tau frá Tógó og Ás vinnustofu. Ljúfir hátíðartónar hljóma í flutningi kóra og tónlistarhópa auk þess sem hinn ómissandi Möndlubás verður með ristaðar aðventumöndlur til sölu á útisvæðinu,“ segir Elísabet.

Leitin að Jólahúsi Kópavogs 2023 er nú hafin og má gjarnan senda inn tillögur á [email protected] – merkt Jólahús í Kópavogi.

Mynd: Komin í jólaskap! Elísabet Sveinsdóttir, formaður Lista- og menningarráðs Kópavogs með með barnabarninu, Alexander Atlasi Arnórssyni 5 ára

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar