Jólaávörp 2021 – Kæru íbúar Kópavogsbæjar

Jólahátíðin nálgast með tilheyrandi samveru með með fjölskyldu og vinum. Þá er aðventan einnig mjög skemmtilegur tími þar sem ýmis konar hefðir eru í hávegum hafðar, svosem jólaboð og jólatónleikar. Desember hefur að sönnu borið svip af samkomutakmörkunum en sem betur verið hægt að halda aðventu með hefðbundnari hætti en í fyrra.

Árið 2021 er annað árið í röð þar sem glíman við heimsfaraldurinn setur svip á starfsemi bæjarins. Við erum þó miklu betur í stakk búin til baráttunnar en í fyrra, enda hafa bólusetningar gengið afar vel.

Þá vil ég geta þess að rekstur bæjarins hefur líka gengið vonum framar í gegnum þessa óvissutíð. Tekist hefur að standa vörð um grunnþjónustu bæjarins um leið og farið hefur verið í ýmis konar framkvæmdir í bænum. Framkvæmdir eru hafnar við nýjan skóla á Kársnesi sem hýsa mun leik- og grunnskóla, umtalsverðu fjármagni hefur verið varið til viðhalds í leik- og grunnskólum, bygging íbúðakjarna við Fossvogsbrún er vel á veg komin og verður tekinn í notkun í janúar. Nýverið var svo kynnt hönnun brúar yfir Fossvog sem verður hin glæsilegasta og mun verða mikil samgöngubót.

Kópavogsbær fékk viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag á árinu sem er að líða og með innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna höfum við með faglegri og markvissari hætti sinnt málefnum barna, meðal annars með því að leggja áherslu á aðkomu barna að ákvörðunum. Þá verður á næsta ári tekin upp sú nýbreytni að leyfa börnum að kjósa um sitt nærumhverfi í skólum undir heitinu Okkar skóli, með svipuðu fyrirkomulagi og Okkar Kópavogur.

Kópavogsbúum heldur áfram að fjölga þrátt fyrir að bærinn hafi lítið af nýju byggingarlandi og eru bæjarbúar nú að nálgast 40.000. Það hyllir undir nýtt hverfi í Vatnsendahvarfi þar sem meiri áhersla verður á sérbýli en verið hefur. Það er mjög eftirsótt að búa í Kópavogi og sannarlega eftirspurn eftir meira húsnæði í bænum okkar og því ánægjuleg tíðindi að nýtt hverfi sé í sjónmáli.

Það hefur lengi verið áhersla hjá okkur sem erum við stjórnvölinn að búa til bæ sem er gott að búa í og veita fyrirmyndar þjónustu og hefur verið samstaða um það í bæjarstjórn þar sem unnið er sameiginlega að fjárhagsætlun og stefnumótun bæjarins.

Undanfarið höfum við þurft að laga starfsemina að breyttum aðstæðum vegna heimsfaraldurs og langar mig til að þakka íbúum fyrir að bregðast vel við breytingum þegar þær hafa skollið á. Þakkir til starfsfólks sömuleiðis sem leggur sig fram um að sinna starfsemi bæjarins vel og örugglega.

Árið er senn á enda. Ég sendi mínar bestu kveðjur um góða aðventu, gleðilega jólahátíð og óskir um farsæld á nýju ári.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins