„Íþróttafélögin í Kópavogi eru lýðheilsusamtök“

Í nútíma samfélagi gegna íþróttafélög gríðarlega mikilvægu samfélagslegu hlutverki. Þau eru ekki geymslustaður lengur fyrir foreldra í annríki dagsins þar sem áhersla er fyrst og fremst á keppnishald og samkeppni. Íþróttafélög samtímans eru í senn íþrótta og lýðheilsu- og uppeldisfélög og eru rekin af fagennsku og hugsjón í senn.

Í aðdraganda bæjarstjórnarkosninganna hef ég fengið tækifæri til að hitta forystumenn stærstu íþróttafélaganna í Kópavogi. Ég vissi alltaf að starfið væri umfangsmikið – enda starfað töluvert um áratugaskeið í einu þeirra. Grunur minn er samt sem áður að margir gera sér ekki grein fyrir mikilvægi þessarar starfsemi.

Margir vita ekki að Breiðablik er til dæmis langstærsta knattspyrnufélag landsins með um 1.700 iðkendur. Nær 20% af öllum leikjum sem fram fara á vegum KSÍ á Íslandi er Breiðablik þátttakandi. Næstu félög ná ekki 1.000 iðkendum. Félagið er í senn fyrirmynd í barna- og unglingastarfi auk þess að vera frumkvöðull í kvennaknattspyrnu á Íslandi. Breiðablik hefur líka náð frábærum árangri í Evrópukeppnum bæði karla og kvenna þrátt fyrir að vallaraðstæður til alþjóðlegrar keppni í Kópavogi uppfylla engan veginn þær kröfur UEFA sem til þarf. Innan HK er stærsta handknattleiksdeild landsins og líka stærsta blakdeild landsins. Sama gildir um blakið. Ég vissi ekki að þriðjungur allar unglinga sem stunda golf á Íslandi gera það undir merkjum Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. Gerpla hefur um áratugaskeið verið í fararbroddi í fimleikastarfi á Íslandi og þannig mætti áfram telja.

Samfylkingin vill gerbreytingu á hlutverki íþróttafélaga frá því sem nú er. Við lítum á hlutverk íþróttafélaga sem hornstein í uppeldi barna okkar og samfélags. Forystumenn íþróttafélaga eru samfélagslega ábyrgir einstaklingar sem leggja fram tíma sinn og orku til að samfélagið verði betra. Þeir eiga ekki að þurfa að upplifa sig sem þurfalinga á samfélaginu og koma með betlistaf til bæjaryfirvalda þegar rætt er um bætta aðstöðu og samstarf við Kópavogsbæ. Það þarf að breyta áherslum í þessu samtali, bæjarbúum til heilla. Samfylkingin vill gerbreyta því viðhorfi Kópavogsbæjar.

Hákon Gunnarsson, 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar