Íslenskar vörur fyrir íslenskar aðstæður

Málning hf er fyrirtæki vikunnar hjá Kópavogspóstinum, sem er valið í samvinnu við Markaðsstofu Kópavogs, en tæp 70 ár eru liðin síðan Málning hf var stofnað. Að stofnun fyrirtækisins stóðu fjölmargir aðilar og má þar sérstaklega nefna afkomendur Péturs Guðmundssonar í Málaranum.

Félagið hóf starfsemi þann 16. janúar 1953 og fyrsta aðsetur félagsins var gamalt skólahúsnæði við Kársnesbraut 32 í Kópavogi. Málning hf hefur ávallt verið með aðsetur í Kópavogi að undanskildum 10 árum, frá miðju árið 1987 til október 1998, en þann 13. júlí dundi mikið reiðarslag yfir starfsemi Málningar þegar byggingin á Kársnesbraut gjöreyðilagðist í eldsvoða sem var til þess að lager og söludeild fluttust upp á Lyngháls 2 en skrifstofur Málningar voru staðsettar að Funahöfða 9. Um miðjan október 1998 flutti svo lager og söludeild Málningar starfsemi sína í nýtt og glæsilegt þriggja hæða húsnæði við Dalveg 18 í Kópavogi. Í byrjun árs 1999 flutti svo önnur starfsemi fyrirtækisins í húsið og þá öll starfsemin komin undir einn hatt.
Haukur Baldvinsson er aðstoðarframkvæmdastjóri Málningar hf og Kópavogspósturinn heyrði í honum og forvitnaðist nánar um starfsemi fyrirtækisins, en hátt í 40 manns starfa hjá fyrirtækinu.

Um miðjan október 1998 flutti lager og söludeild Málningar starfsemi sína í nýtt og glæsilegt þriggja hæða húsnæði við Dalveg 18 í Kópavogi. Í byrjun árs 1999 flutti svo önnur starfsemi fyrirtækisins í húsið og þá öll starfsemin komin undir einn hatt.

Gott starfsfólk og góð aðstaða

Það eru rúm 20 ár síðan þið fluttuð alla starfsemi Málningar í nýtt og glæsilegt hús næði á Dalveginum. Þið kunnið væntanlega vel við ykkur þar og húsnæðið heldur enn vel utan um starfsemi ykkar? ,,Við kunnum mjög vel við okkur hér í Kópavoginum, uppbygging hér hefur verið mikil síðustu ár og hér er öflugt íþróttastarf. Húsnæðið hér á Dalveginum heldur vel utan um okkur en við höfum stækkað lageraðstöðu okkar tvisvar sinnum á þessum árum frá því við fluttum þar inn. Til að byrja með leigðum við út hluta af því en með auknum um- svifum þá þurftum við að nýta það húsnæði sjálfir og enduðum svo á að byggja við það núna síðast 2018,“ segir Haukur og bætir við: ,,Við höfum líka verið einstaklega heppin með starfsfólk í gegnum tíðina. Gott starfsfólk og góð aðstaða hefur spilað stóran þátt í góðum rekstri fyrirtækisins.”

Fjölskyldufyrirtæki frá 1953

En fyrir hvað stendur Málning og hvað bjóðið þið fyrst og fremst upp á? ,,Málning er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað 1953. Málning stendur fyrst og fremst fyrir góðar vörur og góða þjónustu. Langstærsti hlutinn af þeim vörum sem við seljum eru framleidd hér á Dalveginum, við bjóðum því upp á íslenskar vörur fyrir íslenskar aðstæður.”

Og fyrirtækið, tæki og vöruúrvalið hefur sjálfsagt þróast mikið frá upphafsárum fyrir-tækisins? ,,Það hefur ýmislegt gerst frá stofnun Málningar. Það er stöðug þróun í öllum efnum og taka þarf tillit til þess hvað er verið að gera í kringum okkur og þeim reglum sem við þurfum að vinna eftir. Umhverfisvitund hefur aukist gríðarlega síðustu ár og aukin eftirspurn eftir umhverfisvottuðum vörum. Í gegnum tíðina hefur olíuefnum t.d. fækkað og vatnsþynnt efni stöðugt að taka meira við,” segir hann og bætir við: ,,Hjá Málningu starfa 2 efnaverkfræðingar í fullri vinnu við að rannsaka og þróa þau efni sem eru í okkar framleiðslu.”

Umhverfismál hátt skrifuð hjá Málningu

Og í dag eruð þið með ykkar eigin umhverfisstefnu – í hverju felst hún og hvenær fóruð þið að huga að um hverfisþáttum í ykkar framleiðslu? ,,Umhverfismál hafa alltaf verið hátt skrifuð hjá Mál-ningu, t.d. var félagið fyrst á markað með vatsnþynnta málningu stuttu eftir stofnun þess 1953. Í umhverfisstefnu Málningar kemur m.a. fram að öll spillefni og sorp séu flokkuð í samræmi við óskir förgunaraðila. Í framleiðslunni hugum við að nýtingu á orku, vatni og hráefnum og stefnan er að rýrnun á hráefnum og umbúðum sé ávallt undir 2% af ársnotkun.
Annars eru ýmis önnur atriði sem koma fram t.d. að færa sem flestar vörur í átt að 0% merkinu, þ.e. málning án lífrænna leysiefna, ammóníaks eða formaldehýðs.”

Grænt bókhald

Og bókhaldið ykkar er grænt – hvað merkir það? ,,Grænt bókhald er bókhald þar sem koma fram tölulegar upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað. Bókhaldið snýst um að gefa upplýsingar um þætti sem geta ollið neikvæðum umverfisáhrifum okkar framleiðslu. Þetta er skýrsla sem gefin er út einu sinni á ári aðallega til upplýsinga. Við erum stolt af því að halda grænt bókhald en við teljum það vera samfélagslega ábyrgð okkar.”

Eru Íslendingar fastheldnir þegar kemur að litavali eða fylgja þeir straumum og tísku – ávallt nýr tískulitur á hverju ári? ,,Við eigum þónokkra liti sem hafa lítið sem ekkert breyst í litakortum í fjölmörg ár. Það hefur einfaldlega verið vegna þess að mikið af fólki sækir í sömu litina þegar kemur að því að mála. Annars eru alltaf einhverjir litir sem eru í tísku hverju og einu sinni og undanfarin ár hafa jarðlitir verið mjög vinsælir.”

Hver er svo uppáhaldslitur Hauks þegar kemur að inni- og útimálningu? ,,Ég á engan uppáhaldslit þegar kemur að útimálningu en ég málaði íbúðina mína að innan fyrr á árinu og þá notaði ég lit sem er úr NCS kerfi og heitir S 4005-Y20R. Mjög fallegur jarðlitur. Það hefur verið mjög vinsælt undanfarið að mála loft og veggi í sama lit. Ég er sennilega einn af þessum fastheldnu Íslendingum því ég lét mála mitt hvítt. Veggina málaði ég sjálfur en ég fékk frænda minn sem er lærður málari til að mála fyrir mig loftin. Ég sé ekki eftir því, hann var töluvert fljótari og vafalaust mun betri málari en ég,” segir Haukur brosandi.

Áttu von á enn frekari breytingum og vöruþróun á næstu árum – þessi mark-aður sífellt að þroskast? ,,Vöruþróun verður talsverð eins og hefur verið á undanförnum árum. Umhverfisvottaðar vörur og vatnsþynnanleg efni hafa verið að taka við af öðrum efnum. Ef maður ætlar að elta þarfir markaðarins þá þarf maður að vera opinn fyrir alls kyns breytingum.”

Kópavogspósturinn í samstarfi við Markaðsstofu Kópavogs velja fyrirtæki vikunnar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar