Tvíburasysturnar Ingibjörg og Herdís Linnet flytja íslensk þjóðlög í nýjum búningi í
kirkjum Kópavogs. Frítt er inn á tónleikana en þeir eru haldnir þann 15. júlí kl. 12:00
í Digraneskirkju og 20. júlí kl. 17:00 í Lindakirkju.
Tónleikarnir eru á vegum Skapandi Sumarstarfa í Kópavogi en systurnar starfa þar í
sumar með verkefnið Bambaló/Íslensk þjóðlög. Markmið verkefnisins er að skoða
uppruna og sögu íslenskra þjóðlaga, útsetja þau á skemmtilegan hátt og að lokum
flytja þau með lifandi hljóðfæraleik og söng. Ásamt því að spila í kirkjum munu
systurnar músíkölsku einnig koma fram á elliheimilum og félagsmiðstöðvum.
Ingibjörg og Herdís stunda báðar tónlistarnám við Konunglega tónlistarháskólann í
Stokkhólmi. Ingibjörg leikur á trompet en Herdís á píanó. Þjóðlögin nálgast þær út
frá spuna sem þær nota til að semja nýjar útsetningar sem henta þeirra
hljóðfæraskipan.
Að mati systranna lýsa þjóðlögin mikilli hörku og eymd en á sama tíma fegurð
náttúrunnar og mennskunnar. Þær segja íslensku þjóðlögin fyrir unga jafnt sem
aldna enda eru lögin einföld og falleg og hreyfa við öllum.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um tónleikana á facebook viðburði systranna
undir yfirskriftinni: Íslensk þjóðlög í nýjum búningi. Einnig er hægt að fylgjast betur
með þeim á instagram undir @duolinnet.