Ísbúð Huppu opnar í Búðakór í dag – 50% opnunarafsláttur

Ísbúð Huppu opnar nýja og glæsilega ísbúð í Búðakór í Kópavogi í dag, fimmtudaginn 15. febrúar, en Huppuís hefur notið mikilla vinsælda allt frá því að fyrsta ísbúðin opnaði á Selfossi sumarið 2013 af vinkonunum Telmu Finnsdóttur og Eygló Rún Karlsdóttur ásamt mökum þeirra, þeim Gunnari Má Þráinssyni og Sverri Rúnarssyni.

Frá 2013 hafa síðan vinsældir Huppuís aukist jafnt og þétt í gegnum árin og í dag eru ísbúðirnar orðnar 10 talsins sem gerir Huppuís eina af stærstu ísbúðakeðju landsins. Og ef einhver var að velta nafninu fyrir sér, Ísbúð Huppu, þá dregur hún nafn sitt af mjólkurkúnni Huppu, sem var búsett var á bóndabæ ömmu og afa eins stofnendanna.

Eftirspurn eftir Huppu í Kópavoginn

Kópavogspósturinn heyrði í Telmu og byrjaði á því að spyrja hana hvernig það hafi komið til að Búðarkór hafi orðið fyrir valinu fyrir nýjustu Ísbúð Huppu og er erfitt að finna góða staðsetningar? ,,Það hefur verið eftirspurn eftir Huppu í Kópavoginn í svolítinn tíma núna og þegar okkur bauðst þetta húsnæði í Búðarkórnum þá ákváðum við að slá til. Okkur leist mjög vel á húsnæðið og hverfið og erum mjög spennt að koma í Kópavoginn.”

Og verður þetta hefðbundin Huppuís-búð eða alltaf einhverjar nýjungar með hverri nýrri ísbúð? ,,Þetta verður hefð- bundin Huppuísbúð, allar Huppubúðirnar eru eins og það er það sem við viljum, þú veist að hverju þú kemur þegar þú ferð í Ísbúð Huppu.”

Góður ís, réttur staður og rétt stund

En hvernig skýrir Telma þessar miklu vinsældir Huppís? ,,Einfalda svarið er kannski góður ís, réttur staður og rétt stund, áhersla á góða þjónustu ásamt smá þolinmæði og dass af þrautseigju. Við vönduðum okkur við að skapa skemmtilegt umhverfi með litum, þægindum, skemmtilegri tónlist og góðri þjónustu og einnig að vera með nýjungar eins og bragðarefsmatseðil, bragðarefi mánaðarins, Huppusjeika, nýja ísrétti og fleira. Við höfum frá fyrsta degi lagt áherslu á góða þjónustu og stór partur af þjálfun okkar starfsfólks snýst um að kenna þjónustu og erum við með ákveðið kerfi sem við fylgjum í því. Umhverfið skiptir einnig máli og þarf að vera hlýlegt, þægilegt og skemmtilegt.”

Koma annað slagið með nýjungar

Og þið bjóðið upp á ansi fjölbreytt úrval af ís og ístegundum? ,,Já, og við komum annað slagið með nýjungar. Það er mikilvægt að hlusta á hvað viðskiptavinir vilja og gera sitt besta í að mæta því. Það nýjasta hjá okkur núna er jarðaberjaísinn, við mælum með að fólk prufi hann.”

Þú varst aðeins 23 ára þegar þú og Eygló opnuðu ykkar fyrstu Huppu ísbúð. Áttir þú von á þessum miklu vinsældum og að þú værir enn á fullu í þessu rúmum tíu árum síðar? ,,Okkur óraði ekki fyrir því stökki sem fyrirtækið myndi taka þegar við lögðum af stað í þetta ferðalag sem hefur verið bæði krefjandi og skemmtilegt. Við höfum þurft að læra margt á þessum tíma og höfum gengið á ótal veggi en höfum þá geta stutt við hvort annað og komist í gegnum allskonar ævintýri. Þetta er búið að vera mjög óvænt en skemmtilegt.”

Draumurinn er alltaf númer 1 og Bjössi númer 2!

Við vorum að tala um þetta fjölbreytta úrval af ís og ístegundum sem þið bjóðið uppá, en hvað hefur nú verið vinsælast í gegnum þessi ár og hefur það eitthvað breyst? ,,Bragðarefirnir eru alltaf vinsælastir hjá okkur. Vinsælasti bragðarefurinn frá upphafi er Draumurinn en hann er númer eitt á bragðarefamatseðilnum okkar. Á eftir honum kemur svo Bjössi sem er einnig bragðarefur á matseðli hjá okkur. Huppusjeikarnir eru líka mjög vinsælir, Oreo sjeik og Draumasjeik eru þeir vinsælustu.”

50% afsláttur á opnunardaginn

Og þið eruð sjálfsagt spennt fyrir opnuninni og bjóðið alla Kópavogsbúa velkomna? ,Já, við erum mjög spennt og hlökkum mikið til að kynna Huppu fyrir Kópavogsbúum ! Það er allt á 50% afslætti hjá okkur á opnunardaginn og við hvetjum alla til koma og kíkja á okkur.”

Og hvað ís er svo í mestu uppáhaldi hjá Telmu? ,,Ég fæ mér yfirleitt alltaf Drauminn og læt bæta Hockey pulver við, það er í algjöru uppáhaldi,” segir Telma að lokum.

Forsíðumynd: Telma og Gunnar eru spennt að opna Ísbúð Huppu í Búðakór í dag

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar