Ingvar Ómarsson hjólreiðakappi úr Breiðablik er búinn að vera á keppnisferðalagi erlendis síðustu 2 vikur og búinn að keppa í tveimur fjöldægra keppnum. Fyrst var það Andalucia Bike Race á Spáni sem var 5 daga liðakeppni og þar keppti Ingvar með tékkneskum atvinnumanni, Milan Damek. Eftir fyrsta dag voru þeir í 33. sæti af 86 og svo unnu þeir sig jafnt og þétt upp og enduðu í 24. sæti í heildina. Næst flaug Ingvar til Lanzarote þar sem hann tók þátt í fjögurra daga keppni sem einstaklingur. Þar stóð hann sig frábærlega og náði m.a. 3. sæti á næst síðustu dagleiðinni og endaði svo keppnina í 9. sæti í heildina eftir samtals 8 tíma á hjólinu.
Lang besti árangur sem íslenskur hjólireiðamaður hefur náð
Báðar keppnir eru í MTB marathon mótaröðinni hjá Alþjóða hjólreiðasambandinu (UCI) og Ingvar fékk 58 stig fyrir fyrri keppnina og 50 stig fyrir seinni keppnina. Þessi árangur skilar honum vel inn á topp 100 listann hjá UCI sem er lang besti árangur sem íslenskur hjólireiðamaður hefur náð.