Arnarnesvegur forsenda uppbyggingar í efri byggðum Kópavogs
Fyrirhugaðar stofnvegaframkvæmdir samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum er til umræðu á kynningarfundi Betri samgangna og Vegagerðarinnar sem hófst klukkan 10 í morgun en markmið samgöngusáttmálans er að auka valkosti þegar kemur að samgöngum en aldrei fyrr hefur verið lagt í jafn umfangsmiklar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. ,,Uppbygging stofnvegakerfisins er stærsti einstaki þátturinn í sáttmálanum en hann felur einnig í sér uppbyggingu almenningssamgangnakerfisins (borgarlínan), lagningu göngu- og hjólastíga og verkefni sem snúa að bættu umferðaröryggi og -flæði,“ segir í tilkynningu.
Sérstök áhersla verður lögð á kynningu á lokaáfanga Arnarnesvegar á fundinum sem mun liggja frá gatnamótum Arnarsnesvegar og Rjúpnavegar að Breiðholtsbraut. Arnarnesvegur hefur lengi verið á skipulagi enda er hann ein af forsendum uppbyggingar í efri hverfum Kópavogs. Útfærslan, sem kynnt verður á fundinum, er niðurstaða umtalsverðrar greiningarvinnu og samstarfs Vegagerðarinnar, Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar.
Innanhverfisvegur hefur gegnt hlutverki þjóðvegar
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri sagði á kynningarfundinum að á þessu svæði, austan Reykjanesbrautar, búi hátt í 15 þúsund manns. ,,Þetta er fjölmennt svæði og íbúar og þekkja vel umferðarsultuna sem myndast á Vatnsendavegi á álagstímum. Innanhverfisvegur hefur í raun gengt hlutverki þjóðvegar en Vatnsendavegur er eina leiðin í gegnum Vatnsendann í dag. Sá vegur er óásættanlegur sem eina leiðin í gegnum Vatnsendasvæðið. Lokaáfangi Arnarnesvegar mun létta á umferðinni um Vatnsendaveg, íbúum til hagsbóta,“ sagði Ármann á fundinum. ,,Ég vil fagna þessum áfanga, lokakaflanum í rúmlega 30 ára sögu vegarins. Ég hlakka til að keyra fullgerðan Arnarnesveg von bráðarm,“ sagði Ármann að lokum.
Eins og Ármann sagði þá mun áfanginn létta verulega á umferð um Vatnsendaveg en í Kópavogi. Með breytingunni eykst öryggi vegfarenda og ferðatími styttist. Þá mun vegkaflinn bæta viðbragðstíma fyrir neyðaraðila í efri byggðum Kópavogs og Reykjavíkur til muna.
Þegar ferðaleiðum fjölgar mun umferð einnig léttast á Reykjanesbraut og mun fullgerður Arnarnesvegur því hafa jákvæð áhrif á flæði umferðar fyrir íbúa Kópavogs, Reykjavíkur, Garðabæjar og Hafnarfjarðar.