Í Vatnsendahlíð gæti risið 3000 íbúa byggð

Á fundi bæjarráðs Kópavogs í síðustu viku lagði Theódóra S. Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi Viðreisnar fram tillögu um að hafinn verði undirbúningur á deiliskipulagi á nýrri í íbúabyggð í Vatnsendahlíð þegar í stað. Fjöldi íbúða skuli taka mið af því að þar rísi nýtt skólahverfi á þessu glæsilegasta byggingarlandi á höfuðborgarsvæðinu.

Theódóra var spurð að því hvað valdi því að þessi tillaga komi fram núna? ,,Í fyrsta lagi þá er ástandið á húsnæðismarkaðnum með þeim hætti að húsnæðisverð hefur hækkað gríðarlega á skömmum tíma þar sem algjört hrun hefur verið á framboði á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Lóðaskortur á aug-ljósan þátt í þróun markaðarins og við því vil ég bregðast. Í öðru lagi þá er hér um að ræða eitt fallegasta byggingarland á höfuðborgarsvæðinu. Þarna gæti risið 3000 íbúa byggð, heilt skólahverfi, sem liggur fyrir ofan Boðaþing, þ.e ofan við íþróttahúsið Kórinn sem teygir sig í áttina að Guðmundarlundi. Ég veit að fjölmargir íbúar í efri byggðum horfa hýrum augum á þetta fallega svæði þar sem Elliðavatnið og Heiðmörkin eru í bakgarðinum og útsýni yfir stórkostlegan fjallahring. Þjónusta hefur verið að byggjast hratt upp í hverfinu og útivistar- og íþróttaaðstaða á þessu svæði er ein sú allra besta á landinu, bæði fyrir börn og fullorðna. Efri byggðir Kópavogs hafa verið mjög eftirsótt svæði og fólk sem hefur komið sér fyrir þar vill helst ekki yfirgefa hverfið þó það þurfi að stækka við sig eða breyta til. Staðan er hins vegar sú að á fundi bæjarráðs nýverið var verið að úthluta einni lóð í Austurkór og voru sextíu umsækjendur um þessa einu lóð. Það er því þegar mikil eftirspurn eftir húsnæði og lóðum á þessum stað. Í ljósi aðstæðna er því tilvalið að Kópavogsbær hefji undirbúning við skipulagningu nýs skólahverfis í Vatnsendahlíð.

Kort af svæðinu og gamla skipulagið sem var búið að teikna, en gera má ráð fyrir því að það taki breytingum

Þurfum að hlusta á raddir íbúa

Svona miðað við stöðuna á fasteignamarkaði hvernig gengur þá hjá Kópavogsbæ að auka framboð nýrra íbúða? ,,Það hefur almennt séð ekki gengið vel að viðhalda stöðugleika í lóðaframboði á höfuðborgarsvæðinu. Lóðaskortur hefur leitt af sér hækkun fasteignaverðs, hækkandi verðbólgu og hærri vexti. Við þurfum auðvitað að þétta byggð og það erum við að gera, en þéttingarverkefnin eru dýr og það gengur illa að ná sátt um slíkar breytingar hjá íbúum. Til þess að skapa samstöðu um þéttingu þá er nauðsynlegt að hlusta á raddir íbúa frá upphafi. Þá þarf að tryggja eðlilega málsmeðferð í samræmi við það því þegar ágreiningur snýst bæði um efni máls og málsmeðferðina þá er úrvinnsla verkefnanna oft flókin, tímafrek og kostnaðarsöm. Þetta þurfum við að laga og þróa róttækar leiðir til að tryggja þátttöku íbúa í skipulagsmálum,” segir Theódóra og heldur áfram: ,,Hvað varðar Vatnsendahlíð þá þarf að hefja undirbúning strax og ég vil að fólk fái sjálft að hanna hið fullkomna hverfi. Við þurfum því að gera kannanir á eftirspurn eftir mismunandi tegundum húsnæðis. Um tíma var mikil áhersla lögð á að fjölga litlum íbúðum í fjölbýlishúsum og höfum við nú gert talsvert af því. En inn í könnun um þarfir þarf líka að flétta spurningum um viðhorf t.d. til lýðheilsu, loftslagsmála, samgangna, afþreyingar, grænna svæða og tómstunda til að tryggja að hverfið í heild sinni verði þannig skipulagt að það henti þörfum íbúanna. Það er þó rétt að taka það fram hér að Vatnsendahlíð er búin að vera á skipulagi í mörg ár og er hluti af jörðinni Vatnsenda sem Kópavogsbær tók eignarnámi. Sá gjörningur rataði fyrir dómstóla eins og frægt er orðið. Það hafa fallið dómar síðustu ár um þetta mál og nú hefur verið lagt mat á verðmæti landsins. Við ættum því að hefja undirbúning strax til að vera tilbúin með glæsilegt nýtt hverfi þar sem gert yrði ráð fyrir blandaðri byggð einbýlishúsa, raðhúsa og fjölbýlishúsa, ásamt nýjum grunnskóla og leikskóla.
Vatnsendahvarf (þar sem möstrin voru) er í skipulagsferli en ég held að það væri áhugavert að skoða þessi tvö hverfi saman. Vatnsendahlíð og Vatnsendahvarf er samtals 64 hektarar landsvæði en til saman-burðar þá er Keldnalandið í Reykjavík alls 117 hektarar. Það skiptir því miklu máli að Kópavogsbær stígi fast inn í það verkefni að bjóða nýjar byggingarlóðir og taki þannig ábyrgð á þeirri stöðu sem komin er upp til að tryggja að hér verði til frábært nýtt hverfi sem komi til með að geyma 3000 nýja Kópavogsbúa um ókomna tíð,” segir Theódóra.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar