Skráning á haustönn rafíþróttaæfinga hjá Breiðablik og Arena er hafin, en vinsældir rafíþrótta hafa aukist gríðarlega á síðustu árum. Aðstaðan hjá Arena er eins og best verður á kosið, en æfingarnar fara fram
á Smáratorgi 3 og haustönnin hefst 11. september nk. og stendur til 15. desember.
Kópavogspósturinn spurði Daníel Rúnarsson, framkvæmdastjóra Arena, hvernig standi á þessum miklu vinsældum rafíþróttanna? ,,Það er stóra spurningin og kannski engin ein skýring til. Aðstaðan sem við bjóðum í Arena er sú fyrsta sem ræður við mikinn fjölda á æfingum í einu, æfingaaðstaða annarra félaga er oftast með 10 tölvum og einn þjálfara í hlutastarfi á meðan við erum með yfir 100 tölvur á staðnum, yfirþjálfara í fullu starfi og að sjálfsögðu fleiri menntaða rafíþróttaþjálfara með honum. Rafíþróttir eru líka mjög vaxandi yfir höfuð, alveg óháð okkur, og það er gaman að fylgjast með fleiri og fleiri íþróttafélögum taka upp æfingar í raf- íþróttum,” segir Daníel.
Og haustönnin er að hefjast, hvað bjóðið þið upp á og fyrir hvað aldur? ,,Við hefjum haustönnina með Breiðablik núna 11. september en þar verður boðið upppá æfingar fyrir krakka á aldrinum 7 til 15 ára. Fyrir utan hefðbundnar æfingar í þessum helstu leikjum eins og Valorant, Overwatch, Fortnite og Rocket League þá verðum við með sérstaka stelpuhópa í ár sem vonandi hvetur fleiri stelpur til að vera með. Einnig verða blandaðir hópar, svokallaðir „Mix hópar“ fyrir yngstu iðkendurna sem eru kannski ekki farnir að sérhæfa sig í ákveðnum leik.”
Og hvernig fara æfingarnar fram, er hoppað beint í tölvuna þegar mætt er æfingu? ,,Nei, alls ekki. Allar æfingar byrja á stuttri samverustund þar sem farið er yfir áhersluatriði hverrar æfingar. Síðan er farið í létta hreyfingu og teygjur ásamt annarri fræðslu og síðan er farið í tölvurnar. Lykilatriði á æfingum hjá okkur er tölvuleikir séu ekki leið til að drepa tíma heldur viljum við nýta tímann og tryggja að það sem við gerum á hverri æfingu sé að auka færni krakkanna og gera þau betri,” segir hann.
Má ekki segja að rafíþróttaæfingarnar séu nokkuð félagslegar eða er hver iðkandi einangraður og límdur við sinn leikjaskjá allan tímann á meðan æfingunni stendur? ,,Í mínum huga er félagslegi þátturinn einn sá mikilvægasti við rafíþróttaæfingarnar. Við fáum til okkar krakka sem vanalega spila ein heima í myrkvuðu herbergi þar sem hægt er að komast upp með allskonar hegðun, misgóða. Hjá okkur eru þau saman undir stjórn þjálfara sem leggur metnað sinn í að kenna krökkunum rétta hegðun og nálgun á leikina. Við eigum síðan ótal dæmi um krakka sem hafa ekki fundið sig í skólanum eða öðrum íþróttum en hitta hjá okkur aðra krakka sem eru á sömu bylgjulengd og úr verður frábær vinskapur sem nær langt út fyrir æfingarnar.”
Þegar ungmenni æfa rafíþróttir, þurfa þeir þá að eiga fullkomið töluvbúnað heima hjá sér og að æfa sig þar til að verða betri – eru heimaæfingar? ,,Við gerum enga kröfu um tölvubúnað og í raun er nóg að stunda æfingarnar hjá okkur. Krakkarnir eru hvattir til að breyta hegðun sinni heima fyrir og spila ekki tölvuleiki til að drepa tíma heldur nálgast þá einsog æfingarnar þar sem tíminn er nýttur á uppbyggilegan hátt. En þar liggur kjarninn í muninum á rafíþróttum og tölvuleikjaspilun,” segir Daníel.
Hver er svo tilgangurinn með að að æfa rafíþróttir – er það bara eins og í öðrum íþróttum að verða betri og ná sem lengst? ,,Tilgangurinn er auðvitað jafn misjafn og krakkarnir eru margir en við vonum að krakkarnir skemmti sér vel, þau eru jú krakkar og eiga ekki að burðast með of miklar væntingar um frammistöðu, en við viljum líka sjá þau bæta sig í færni hvort sem það er í tölvuleikjunum sjálfum eða annarri færni sem nýtist almennt í lífinu eins og viðbragðsflýti, lausnamiðaðri hugsun og félagslegri framkomu.”
Og skráning er hafin, þið hvetjið alla til að prófa? ,,Skráning er hafin á Arena-Gaming.is og við að sjálfsögðu hvetjum öll til að prófa. Öllum býðst að mæta í viku og prófa og sjá hvort rafíþróttirnar henti og svo minnum við á systkinafslátt sem og afslátt fyrir börn sem stunda aðrar íþróttir hjá Breiðablik.”
Nú erum að gera að kynna sér úrval námskeiða sem Arena býður upp á og skrá sig til leiks í eitt metnaðarfyllsta rafíþróttaverkefni landsins.