Skólastarf í grunnskólum Kópavogs er hafið að nýju eftir sumarfrí og skólarnir farnir að iða af lífi og fjöri. Sem formaður Menntaráðs í Kópavogi þykir mér alltaf ánægjulegt að sjá nemendur snúa aftur á skólabekkinn, tilbúnir að takast á við nýjar áskoranir og læra nýja hluti. Kennarar leggja sitt af mörkum til að skapa jákvætt námsumhverfi þar sem allir geta blómstrað.
Skólasetning fór fram föstudaginn, 23. ágúst en í Kópavogi eru starfandi tíu framsæknir grunnskólar þar sem starfar öflugt starfsfólk sem undirbýr börnin okkar sem best fyrir framtíðina. Á komandi skólaári munu um 5000 grunnskólanemar stunda nám í Kópavogi og um 500 sex ára börn eru nú að hefja sína grunnskólagöngu.
Réttindaskólar UNICEF
Ég lít svo á að jafnrétti, lýðræði og mannréttindi séu grunnþættir menntunar í okkar sveitarfélagi og við viljum skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi með frið, umburðarlyndi og jafnrétti að leiðarljósi.
Kópavogur er sem fyrr barnvænt sveitarfélag en það byggir á samstarfssamningi UNICEF og Kópavogsbæjar. Í gegnum samstarfssamninginn er unnið markvisst að því að uppfylla réttindi barna. Barnasáttmálinn er notaður sem leiðarljós í þeirri vinnu og er útgangspunktur í allri ákvarðanatöku í skóla- og frístundastarfi í Kópavogi.
Álfhólsskóli, Kópavogsskóli, Lindaskóli, Snælandsskóli og Vatnsendaskóli hófu innleiðingu réttindaskóla og réttindafrístund UNICEF árið 2022. Smáraskóli hóf innleiðingu sl. haust og núna haustið 2024 bætast svo Hörðuvallaskóli og Kóraskóli við hópinn. Innleiðing hefur gengið vel og hafa Snælandsskóli og Vatnsendaskóli fengið viðurkenningar sem réttindaskólar og réttindafrístund, en allir skólarnir stefna á að fá viðurkenningu sem réttindaskólar í nóvember á þessu ári.
Í stuttu máli eru þeir skólar sem fá viðurkenningu sem réttindaskóli að gæta þess að Barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna sé virtur í öllu starfi. Starfsfólk skólans myndar skjaldborg utan um börnin, fræðir þau og gætir þess að þeirra réttindi séu virt. Skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sem vinna verkefnið leggja sáttmálann til grundvallar í öllu starfi. Réttindaskóli hefur það markmið að byggja upp lýðræðislegt umhverfi og viðhorf sem hjálpar börnum og ungmennum að verða gagnrýnir og virkir þátttakendur í nútímasamfélagi.
Stafrænt nám í skólum
Á tímum þar sem tæknin þróast hratt er mikilvægt fyrir skóla að aðlagast breyttu samfélagi og samþætta tækniframfarir inn í námsumhverfið. Tæknin býður upp á fjölbreytt tækifæri til að efla kennslu og nám, en það krefst einnig breytinga á hefðbundnum kennsluaðferðum. Skólar þurfa að leggja áherslu á að þjálfa kennara í nýjustu tækni og tryggja að nemendur fái aðgang að þeim tækjum og forritum sem geta auðgað námið. Á markvissan hátt geta skólar undirbúið nemendur fyrir framtíðina þar sem tæknilæsi verður lykilatriði í atvinnulífi og samfélagi.
Aðlögun að tækni í skólastarfi snýst ekki aðeins um að nota nýjasta tækjabúnaðinn heldur einnig um að breyta hugsunarhætti og nálgun við kennslu. Þetta felur í sér að þróa gagnrýna hugsun, skapandi lausnaleit og hæfni til að nýta tæknina á ábyrgan og skilvirkan hátt. Kópavogsbær hefur verið leiðandi í stafrænni vegferð í skólastarfi og hefur samþætt snjalltæki við námsferlið. Í gegnum skýra áætlun varðandi tækninotkun í námi og markvissa vinnu við að stuðla að stöðugri endurskoðun og þróun kennsluaðferða sem leiðir til jákvæðra áhrifa á námsárangur nemenda.
Til að meta áhrif innleiðingarinnar var framkvæmd yfirgripsmikil rannsókn á árunum 2021 – 2022 á vegum Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru kennarar, nemendur, foreldrar og skólastjórnendur. Rannsóknin leiddi margt jákvætt í ljós meðal annars að fjölbreytni hefði aukist og fleiri tækifæri til aðlögunar náms og sköpunar í námi. Einnig komu fram þættir sem greina þarf betur og bregðast við, t.d. að setja mörk um notkun snjalltækja, fækka tæknilegum hindrunum og skoða möguleika á verkfærum fyrir nemendur þar sem þeir geta nýtt lyklaborð og penna við stafræna námið. Umbótaáætlun í kjölfar rannsóknarinnar kemur til framkvæmda í skrefum á því skólaári sem er að hefjast.
Áhættugreining kennsluhugbúnaðar
Ný tækni kallar á ný verkefni og geta áskoranir verið margvíslegar hverju sinni að því sem viðkemur tækninni. Eitt af því er að áhættugreina og meta kennsluhugbúnað sem notaður er í starfi með börnum í grunnskólum til að tryggja öryggi nemenda og gæði kennslunnar. Því er mikilvægt að fara vel yfir nauðsyn og tilgang þess að nota kennsluhugbúnað í kennslu áður en hann er tekinn í notkun.
Þegar nýr hugbúnaður er tekinn í notkun þarf að meta mögulegar áhættur eins og öryggisgalla, gagnavernd, viðeigandi innihald og hvort hugbúnaðurinn stuðli að jákvæðu námsumhverfi. Þetta er mikilvægt skref til að tryggja að tæknin styðji við nám án þess að skapa óþarfa áhættu.
Greiningin felur í sér að skoða hvort persónuupplýsingar nemenda séu nægilega verndaðar, hvort hugbúnaðurinn sé í samræmi við námsmarkmið skólans, og hvort hann sé notendavænn fyrir bæði kennara og nemendur. Slík vinna er þverfagleg þar sem sjónarmið fræðslu, persónuverndar, gæða, öryggis og laga og reglugerða eru undirstrikuð oghugbúnaðurinn metinn á ábyrgan hátt.
Áhersla á stafrænt læsi og stafræna borgaravitund
Allt frá því að spjaldtölvuinnleiðingin hófst í Kópavogi hefur verið lögð sérstök áhersla á fræðslu í stafrænni borgaravitund þar sem nemendum er kennt að vafra um stafrænar auðlindir á ábyrgan og skilvirkan hátt. Fulltrúar skólanna hafa sótt endurmenntun í kennslu í stafrænu læsi ásamt stafrænni borgaravitund með því markmiði að þróa færni og þekkingu nemenda í ábyrgri netnotkun, öruggum netsamskiptum og góðu siðferði.
Í dag er Kópavogur í fararbroddi sveitarfélaga í mótun þessarar fræðslu og mun í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og Langholtsskóla gefa út vefsíðu nú á haustdögum. Á vefsíðunni verður námsefni á íslensku frá Common Sence Education ásamt kennsluleiðbeiningum og öðru hagnýtu íslensku efni. Kennslumyndbönd hafa einnig verið unnin á grundvelli jafningjafræðslu.
Unnið er jafnframt að mótun hæfniviðmiða fyrir skólanámskrá grunnskóla og frístundastarf og stuðningur verður veittur við innleiðingu þessara nýju lífsleikni sem er tilkomin vegna tækni- og samfélagsþróunar. Með heildstæðri námskrá hafa kennarar yfirsýn yfir fræðsluna og skólarnir geta unnið markvisst að eflingu stafrænnar vitundar.
Félagsmiðstöðvar sinna mikilvægu hlutverki
Félagsmiðstöðvar í Kópavogi gegna mikilvægu hlutverki í frístunda- og forvarnarstarfi þar sem faglegt og skipulagt hópastarf er stór hluti af starfinu og er aðgengilegt ungu fólki í Kópavogi. Í aðgerðaráætlun menntastefnu Kópavogsbæjar er unnið sérstaklega að því að auka þátttöku ungs fólks íhópastarfi með það að markmiði að bæta líðan og auka virkni ásamt því að læra að takast á við félagslegar aðstæður.
Í aðgerðaráætlun menntastefnu Kópavogbæjar hefur verið unnið að þróun mælinga á þátttöku í hópastarfi og þjónustukönnun í félagsmiðstöðvum Kópavogs. Kannanirnar eru mikilvægar og veita okkur innsýn í hvort þátttaka í hópastarfi hafi jákvæð áhrif á sjálfsmynd, félagslega færni og líðan þeirra sem taka þátt í starfinu. Einnig fáum við að heyraraddir þeirra sem sækja þjónustuna um kosti og mögulegar umbætur.
Við vitum líka að foreldrar og forráðamenn gegna mikilvægu hlutverki í líðan ungs fólks og koma að með stuðningi sínum.Þess vegna er mikilvægt að stuðla að samtali á milli frístundar og heimilis til að tryggja velferð og vellíðan ungs fólks í Kópavogi. Með þetta að leiðarljósi hafa verið sendar út þjónustukannanir til forráðamanna og er horft til þess að gera það reglulega líkt og þjónustukannanir til unga fólksins í Kópavogi.
Niðurstöður þjónustukannana og árangur af þátttöku í hópastarfi sýna m.a. eftirfarandi:
· Tæplega 90% foreldra/forráðamanna eru ánægðir eða mjög ánægðir með félagsmiðstöðina í heild sinni.
· Rúmlega 80% foreldra/forráðamanna telja barnið sitt hafa verið ánægt eða mjög ánægt í félagsmiðstöðinni sl. skólaár.
· Rúmlega 80% ungs fólks eru sátt eða mjög sátt með sína félagsmiðstöð í heild sinni.
· Tæplega 90% ungs fólks eru sátt eða mjög sátt við starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar.
· Um 90% svarenda finnst félagsmiðstöðvastarf mikilvæg þjónusta.
Dæmi um ástæður sem unga fólkið gefa fyrir því að finnast þjónustan mikilvæg eru m.a. eftirfarandi:
· Að við fáum öll að vera allskonar
· Öll velkomin
· Að geta alltaf talað við og treyst starfsfólkinu
· Öruggur staður til að hitta vini
· Ýtir undir félagsleg tengsl
· Þar er borin virðing fyrir manni og hlustað á hvað maður hefur að segja,
· Starfsfólkið er áhugasamt og taka tillit til allra
· Mikilvægt fyrir þá sem hafa ekki félagsskap annarsstaðar
· Skemmtilegur staður til að vera með vinum í staðinn fyrir að vera bara í símanum
· Fólk sem á ekki mikið af vinum getur kynnst fólki betur þar
· Hvetjandi til að fara út og hitta fólk
· „Maður getur talað við krakka sem maður myndi ekki endilega tala við annars og lærir soldið á að vera nice og eiga vini“
Nú er nýtt skólaár hafið og ég óska þess að við fögnum saman komandi tímum. Skóli er ekki bara staður þar sem við lærum nýja hluti, heldur einnig vettvangur þar sem vinátta blómstrar og við þroskumst sem einstaklingar.
Ég vil því við upphaf skólaárs óska nemendum, kennurum og aðstandendum velfarnaðar með von um að skólastarfið í vetur verði farsælt.
Hanna Carla Jóhannsdóttir, formaður Menntaráðs í kópavogi.