Hvert fara peningar bæjarins?

Kópavogsbær heldur utan um mörg áhugaverð og skemmtileg stafræn verkefni fyrir íbúa Kópavogs og má þar meðal nefna verkefnið ,,Hvert fara peningarnir“ sem er frábær veflausn sem leyfir íbúum að elta uppi hvert peningar bæjarins fara.

Ingimar Þór Friðriksson, er forstöðumaður upplýsingatæknideildar Kópavogs, og Kópavogspósturinn forvitnaðist nánar um þessa áhugaverðu veflausn sem leyfir í raun öllum bæjarbúum að hafa eftirlit með bæjarfélaginu og sjá í hvað peningarnir fara.

Kópavogsbær hefur ekkert að fela

Hvaða hugmynd er á bak við þessa veflausn ,,Hvert fara peningarnir“, af hverju fóru menn í hana og hefur hún verið aðgengileg bæjarbúum lengi? ,,Hugmyndin var alltaf sú að auka gegnsæi í rekstri bæjarins. Kópavogsbær hefur ekkert að fela og heppilegt ef íbúar hafi aðgang að þessum gögnum. Lausnin var opnuð í september 2016 og var Kópavogsbær fyrsti opinberi aðilinn til að opna bókhaldið sitt með þessum hætti. Hægt er að skoða þróun kostnaðar allt frá árinu 2014,” segir Ingimar Þór.

Hægt er að flokka gögnin í valmynd lausnarinn. Hægt er að flokka eftir Málaflokkum/deildum, Fjárhagslyklum og Lánadrottnum

Og hversu djúpt geta bæjarbúar kafað í bókhald bæjarins? ,,Hægt er að flokka allan kostnað á margvíslegan hátt. Hægt er að skoða ákveðinn flokk kostnaðar sérstaklega, t.d. matvöru. Hægt er að skoða hvar verslað er t.d. Bónus. Einnig er hægt að flokka eftir því hvenær kostnaðurinn féll og hvaða deild/stofnun ber ábyrg á kostnaðnum. Ekki nóg með þetta þá er hægt að blanda þessum flokk-um saman og skoða t.d. hve mikið einn grunnskóli versla matvöru í Bónus eða grunnskólarnir samanlagt ef því er að skipta.”

Og bæjarbúar geta því borið saman t.d. rekstur einstakra leik- og grunnskóla bæjarins og rekstur íþróttamannvirkja bæjarins svo eitthvað sé nefnt? ,,Já, einmitt. Hægt er að skoða hvernig kostnaður fellur til hjá deildum og stofnunum bæjarins.“

Og veflausnin býður einnig upp á að skoða við hvaða fyrirtæki bæjarfélagið verslar við þ.e.a.s. aðkeypt þjónusta og vörur? ,,Já það er rétt. Í lausninni eru fyrirtæki nefnd lánadrottinn í samræmi við venjur fjárhagsbókhalds. Almennt séð var reynt að hanna lausnina þannig að hún væri notendamiðuð og aðgengileg fyrir aðila sem þekkja lítið til fjárhagsbókhalds.”

Hægt er að sía gögnin og skoða hverjir eru stærstu lánadrottn-arnir í ákveðnum vöruflokki eins og hér er gert með Matvöru

Það er því allt upp á borði og auðvelt fyrir áhugasama bæjarbúa að fylgjast með? ,,Það
ætti að vera auðvelt fyrir bæjarbúa að fylgjast með. Þegar búið er að flokka kostnaðinn m.v. áhuga íbúans þá getur íbúinn vistað flokkunina sína einfaldlega með því að bæta síðunni í uppáhalds síður (bookmark) og þá geymist flokkunin og hægt að endurnýta uppsetninguna síðar,” segir Ingimar að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar