Hvers konar hjörtu hefur hlustunarpípa læknisins heyrt slá?

Ef veggirnir gætu talað – Sögusmiðja með Arndísi Þórarinsdóttur á Lindasafni 11. september.

Arndís Þórarinsdóttir, rithöfundur er flestum landsmönnum kunn fyrir ótrúlega skemmtilegar barna- og unglingabækur. Nýverið sendi hún frá sér bókina Bál tímans – örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár. Þar tekur miðaldahandritið til máls og segir frá lífshlaupi sínu og verður sagan með því móti mun aðgengilegri en ella.

Laugardaginn 11. september kl. 13 – 15 ætlar Arndís á bjóða upp á sögusmiðju á Lindasafni og gefa ungskáldum færi á að prófa sig áfram í skapandi skrifum. Arndís er að eigin sögn afskaplega mikill bókaormur og eru bókasöfn í sérlegu uppáhaldi hjá henni. Á bókasöfnum er pláss fyrir alla og skemmir ekki fyrir að þar er til efni um nánast allt fyrir rithöfunda sem eru að skrifa um allskonar. „Ef maður skrifaði bara um það sem maður þekkir þá væru allar mínar bækur um miðaldra konu sem skrifar barnabækur“ segir Arndís og brosir. Bókasöfnin „eru líka einu staðirnir í samfélaginu þar sem þú mátt bara vera og enginn ætlast til að kaupir eitthvað eða gerir eitthvað“. Bókasafn er því tilvalinn staður fyrir börn og unglinga til að sitja ritsmiðju og munu ungskáldin gera skemmtilegar æfingar og uppgötva hvernig má gefa dauðum hlutum líf í texta, því sögur leynast allt í kringum okkur. Hvaða leyndarmál hafa verið hvísluð við rætur stóra trésins? Hvaða prakkarastrikum hafa skrifborðin í skólastofunni orðið vitni að? Hvers konar hjörtu hefur hlustunarpípa læknisins heyrt slá? Hvernig má fá innblástur frá því umhverfi sem er í kringum okkur? Aldrei að vita nema svörin fáist í bókum á bókasafni og verður því ekki langt að fara í leit að svörum í ritsmiðjunni.

Verið velkomin í Fjölskyldustund á Lindasafni.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar