Fyrir nokkrum árum voru háleit loforð gefin til íslenskra heimila um betri efnahagslega framtíð. Núverandi forsætisráðherra fullyrti að fólk fengi meira fyrir laun sín, skattar hefðu lækkað og að verðbólga væri hófleg. Talað var um að auðveldara væri að ná endum saman og varað við að breytingar á ríkisstjórn gætu hækkað verðbólgu á ný.
Sumir trúðu því í framhaldinu að Ísland væri á leið inn í tímabil efnahagslegrar velmegunar en raunveruleikinn hefur reynst annar. Eftir endurkjör ríkisstjórnarinnar var gríðarlegu magni af ódýrum peningum dælt inn í hagkerfið til að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins. Þessi aðgerð, ásamt seinkun þess að draga úr peningaprentun, leiddi til þess að verðbólgan óx verulega og stýrivextir hækkuðu.
Ójöfnuður eykst
Lágtekjufólk, leigjendur og skuldugar barnafjölskyldur fundu hvað mest fyrir hækkandi vöxtum og verðbólgu. Þau sem skulda lítið eða eiga mikið fjármagn hafa minna að óttast og geta haldið lífi sínu áfram án mikilla óþæginda. Þetta veldur auknum ójöfnuði þar sem þeir sem eiga mest njóta góðs af ástandinu á meðan aðrir berjast í bökkum.
Síðasta ríkisstjórn hélt því statt og stöðugt fram að hlutirnir væru á réttri leið og að þetta væri „allt að koma“. En ríkissjóður er rekinn með miklum halla og vaxtakostnaður ríkisins er einn sá hæsti í Evrópu. Þrátt fyrir þetta ástand hefur lítið verið gert varðandi tekjuhlið ríkisfjármálanna til að auka tekjur ríkissjóðs eða draga úr halla.
Þetta lagast ekki af sjálfu sér
Nýlegar tölur sýna að 10 prósent heimila í landinu fá 70 prósent allra fjármagnstekna. Á meðan eiga margir í fjárhagserfiðleikum hér á landi en um 60.000 heimili ná endum saman með naumindum, nota sparifé eða safna skuldum. Þetta er ólíðandi með öllu.
Það er mikilvægt að horfast í augu við stöðuna og viðurkenna að aðgerða er þörf til að leysa vandamálin sem þessi hópur stendur frammi fyrir. Það er ekki nóg að bíða og vona að hlutirnir lagist af sjálfu sér. Ein leið til að gera það er að endurskoða skattkerfið og tryggja að þeir sem hagnast mest á ástandinu leggi meira af mörkum til samfélagsins. Einnig þarf að huga að því að styðja við þá sem verst hafa orðið úti, til dæmis með auknum stuðningi við lágtekjufólk, leigjendur og skuldugar fjölskyldur.
Efla þarf traust almennings
Einnig er nauðsynlegt að auka traust og trúverðugleika í stjórnmálum. Kjósendur þurfa að geta treyst því að stjórnmálamenn standi við gefin loforð og vinni í þágu heildarinnar. Þegar loforð eru ekki efnd og ábyrgðin lítil, þá eykst vantraustið og trúin á kerfið veikist.
Við þurfum stjórnmálamenn sem eru tilbúnir að taka erfiðar ákvarðanir, setja hagsmuni þjóðarinnar ofar eigin hagsmunum og vinna að raunverulegum lausnum. Það er ekki nóg að treysta á þá sem virðast vinna fyrst og fremst við að vona það besta. Það þarf aðgerðir og ábyrgð. Það er kominn tími til að við tökum af skarið og kjósum fólk sem er tilbúið að vinna saman að betra samfélagi þar sem allir geta notið góðs af.
Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata í Suðvestur kjördæmi