Hverfin okkar í framtíðinni

Hverfi Kópavogs eiga öll að vera eftirsóknarverð. Á næstu átta árum er áformað að byggja 4.000 íbúðir, þar sem ný hverfi rísa við Vatnsenda og byggð verður þéttari í efri og neðri byggðum. Þessi uppbygging krefst framtíðarsýn kjörinna fulltrúa og hér þarf að vanda vel til verka. Það má draga lærdóm af dýrkeyptum mistökum sem gerð hafa verið í Reykjavík í þessum efnum, þar sem misráðnar ákvarðanir hafa ítrekað verið teknar á undanförum árum og farið hefur verið í of mikla þéttingu á afmörkuðum svæðum. Það hefur ekki aðeins reynst gríðarlega kostnaðarsamt og sums staðar gert þvert á vilja íbúa, heldur hafa innviðir á svæðunum, til dæmis skólar, ekki ráðið við þéttinguna og eru einfaldlega sprungnir. Slík mistök má ekki gera í Kópavogi.

Það er mikilvægt að tryggja samstöðu og sátt meðal bæjarbúa þegar kemur að uppbyggingu. Hverfi og þarfir íbúa breytast með lýðfræðilegri þróun og við þurfum að fjárfesta í innviðum til að fylgja eftir fjölgun íbúa. Það er fjárfesting til framtíðar.

Þar sem unnt er að koma því við á skipulag hverfanna að miða að því að íbúar þeirra geti sótt sem mest af daglegri þjónustu í göngufjarlægð frá heimili sínu hvort sem horft er til skóla, íþrótta- og tómstundaiðkunar, leiksvæða, útivistarsvæða eða verslunar og þjónustu. Við eigum að byggja upp fleiri græn svæði sem stuðla að aukinni ánægju, hreyfingu og ýta undir góða lýðheilsu fyrir íbúa. Þá viljum við gera hverfin okkar enn betri og vistvænni.

Lýðheilsa snertir okkur öll

Lýðheilsa er mikilvæg fyrir unga sem aldna Kópavogsbúa og mikilvægt að stuðla að vellíðan á öllum aldursskeiðum. Hvort sem horft er til aðstöðu til hreyfingar í nærumhverfi eða mataræðis barna, eldri borgara eða starfsmanna bæjarins. Þá gegna íþróttafélög bæjarins mikilvægu forvarnarhlutverki og við eigum að standa vörð um allt það góða starf sem þar fer fram. Þess vegna þurfum við meðal annars að efla samstarf bæjarins við íþróttafélögin og hugsa til langs tíma þegar kemur að forgangsröðun viðhalds og fjárfestinga.

Eldri bæjarbúar eiga að fá tækifæri til að búa á heimilum sínum eins lengi og þeir kjósa með nauðsynlegum stuðningi. Það eru til staðar tækifæri til að samþætta betur heimaþjónustu og heimahjúkrun eldri borgara og það skilar sér í skilvirkari og betri þjónustu.

Hollt mataræði stuðlar að betri líðan. Þess vegna viljum við leggja ríka áherslu á hollan og næringarríkan mat fyrir börnin okkar, eldri bæjarbúa og starfsmenn bæjarins. Þá viljum við líka snjallar lýðheilsuupplýsingar beint í símann. Mikil þróun er að eiga sér stað í fjarþjónustu í lýðheilsumálum og Kópavogur á að vera leiðandi á þessu sviði. Íbúar vilja vita hvar græn svæði, hjóla-, hlaupa- og göngustígar, leiksvæði og útivistarsvæði eru að finna. Lýðheilsuapp í símanum myndi veita íbúum Kópavogs slíkar upplýsingar án fyrirhafnar.

Ég vil sjá Kópavog sækja fram á öllum sviðum og ég hef hér nefnt nokkur dæmi sem hægt er að ráðast í með öflugri forystu. Það liggja fyrir okkur tækifæri sem við eigum að nýta til að gera Kópavog betri. Framtíðin er – og verður – í Kópavogi.

Ásdís Kristjánsdóttir býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi 12. mars nk.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar