Hver ræður skipulaginu í Kópavogi?

Á síðustu árum hefur áhugi íbúa á skipulagsmálum aukist til muna. Mikil uppbygging, sérstaklega í grónum hverfum hefur hreyft við fólki enda margir sem telja að slíkar breytingar muni hafa áhrif á þeirra líf og umhverfi. Nú eru í bígerð miklar breytingar á þéttingarreitum á milli Hamraborgar og Fannborgar, Nýbýlavegar og Auðbrekku og svo vestast á Kársnesi. Þessar breytingar hafa meiri áhrif á íbúa en nokkur uppbygging í Kópavogi hefur áður gert.

Hver ræður skipulaginu?

En hvernig fer slík þétting fram? Hver ákveður hvað á að byggja og hversu þétt. Oftast er um að ræða víkjandi byggð á skilgreindum þróunarsvæðum þar sem lóðir eru keyptar upp af fjárfestingaraðilum sem vilja byggja nýjar og stærri byggingar til að græða á. Þetta er ferli sem bæjarfélagið hefur ekki vald yfir. En hvar liggur vald bæjarfélagsins? Jú, skipulagsvaldið er í höndum bæjarins. Á síðustu árum hefur það tíðkast hjá núverandi valdhöfum að láta lóðarhafa borga fyrir að hanna tillögu að deiliskipulagi þeirra svæða sem þeir hafa fest kaup á. Jafnvel þó Kópavogsbær eigi hlut í þeim svæðum. Sú tillaga er síðan lögð fyrir bæjarbúa til kynningar. Eftir kynningar og endurbætur á tillögu í samræmi við athugasemdir hagsmunaaðila verður til deiliskipulag byggt á tillögu lóðarhafa. Þetta fyrirkomulag er tvíbent. Lóðarhafar koma með tillögu að eins miklu byggingarmagni og þeir telja sér fært að leggja fram, þeir fá mótbárur og minnka magnið og samið er um útfærslu sem er ekki endilega í samræmi við væntingar bæjarbúa.

Dæmin tala

Nú höfum við mörg dæmi um slíkt. Tvær lóðir á milli Hamraborgar og Fannborgar, Traðarreit austur á milli Kópavogsskóla og MK, Traðarreit vestur sem er vestan við Kópavogsskóla og Reit 13 á SV- horni Kársness þar sem Kópavogsbær og HSSK eiga tæp 34% . Í öllum tilfellum eru verktakarnir látnir standa straum af deiliskipulagsvinnu og þar með er skipulagsvaldið fært til þeirra að hluta.
Þetta fyrirkomulag verður til þess að aldrei er farið í heildarskoðun á stórum svæðum með þarfir og óskir íbúanna að leiðarljósi.

Hvað verður útundan?

Það sem fyrst og fremst verður útundan eru svæði sem bæta lýðheilsu og gæði nýrra hverfa. Athugasemdir sem bárust vegna reits 13 á Kársnesi snérust að stórum hluta um vöntun á grænum svæðum, dagvöruverslun, leikskóla og annarri nærþjónustu sem íbúar kalla eftir. Ekki hafði verið hugsað nægilega vel fyrir hinum mannlega þætti í þéttingu byggðar á svæðinu. Það er eðlileg afleiðing þess þegar lóðarhafar eru látnir borga fyrir hönnun deiliskipulags á sínum reit, þá vantar alla heildarhugsun fyrir svæðið. Samfylkingin vill efna til hugmyndasamkeppni um helstu miðsvæði okkar og byggja deiliskipulag svæða á þverfaglegri vinnu.

Bergljót Kristinsdóttir. Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar