Hvar eiga barnabörnin að búa?

Síðustu tvö ár bættust við 4.719 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Það er mestur fjöldi íbúða sem byggður hefur verið á tveggja ára tímabili frá upphafi. Nú hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gefið út að byggja þurfi 4.000 íbúðir á ári næstu fimm árin á landinu öllu. Það er mikil breyting frá því árið 2019 þegar varað var við offramboði nýrra íbúða og talið nóg að byggja 2.000 íbúðir á ári.

Er nóg land til?

Ef byggja þarf 4.000 íbúðir á ári ætti Kópavogur að tryggja uppbyggingu 415 íbúða m.v. hlutfall íbúa af heildaríbúafjölda landsins. Þetta markmið ætti að nást á næstu árum ef vel er staðið að skipulagningu nýrra hverfa. En land er ekki óþrjótandi auðlind. Kópavogur hefur byggt hratt upp það land sem er í eigu bæjarins og nú fækkar ört þeim svæðum sem hægt er að telja til nýbyggingarsvæða. Þau óbyggðu svæði sem bærinn á eða mun kaupa eru: Glaðheimasvæðið, Vatnsendahvarf (þar sem útvarpsmöstrin stóðu), Vatnsendahlíð (fyrir ofan hestamannafélagið Sprett) og hluti úr jörð Vatnsenda þegar dómsmál um eignarrétt á landinu hefur verið leitt til lykta. Þetta er ekki mikið land ef horft er til framtíðar. Því er okkur nauðsynlegt að þétta byggð.

Þarf að þétta byggð?

Samkvæmt samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir þéttingu byggðar meðfram legu borgarlínunnar. Þriðja stærsta samgöngumiðja höfuðborgarsvæðisins er í Hamraborg og því eðlilegt að þétta byggð þar. Við þéttingu byggðar gilda önnur lögmál en þegar byggt er á óbrotnu landi. Huga þarf vel að nærumhverfinu og taka tillit til þeirra sem fyrir eru. Eins og staðið hefur verið að málum hingað til hefur lóðarhöfum verið gert að skipuleggja sínar lóðir og nærumhverfi á miðsvæði Hamraborgar og Fannborgar. Samfylkingin hefur ítrekað kallað eftir heildarendurskoðun á öllu miðsvæðinu frá Kópavogskirkju að Kópavogsskóla og á milli brúa frá norðri til suðurs þar sem öll Hamraborgin er skoðuð í samhengi. Það hefur loksins verið hlustað á kröfur okkar og nú er beðið eftir tillögum frá ráðgjafafyrirtækinu Alta um mótun heildarsýnar á miðbæ Kópavogs.

Hvað með barnabörnin?

Það er nokkuð ljóst að þau sem í dag eru börn þurfa eigið húsnæði eftir 20 – 30 ár. Ef við viljum að þau hafi möguleika á að búa í Kópavogi þurfum við að þétta byggð. Áætlun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins gerði ráð fyrir fjölgun um 70 þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2015 til 2040. Miðað við þá fjölgun sem þegar hefur átt sér stað frá 2015 má gera ráð fyrir að fjölgunin verði um 110 þúsund manns árið 2040 ef fram heldur sem horfir. Til samanburðar eru íbúar SV- kjördæmis í dag 105.194 talsins.

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar