Hvar á Smiðjuvegi?

Hér í Kópavogi má finna blómlegt atvinnulíf á Smiðjuvegi og í nærliggjandi götum. Þar má finna næstum hvað sem er, hvort sem þú ert að leita að útivistarvörum, fatnaði, matvöru eða að koma bílnum þínum í toppstand. Á svæðinu eru fjölmörg fyrirmyndarfyrirtæki sem veita fyrsta flokks vörur og þjónustu.
Mikilvægi atvinnulífsins á Smiðjuvegi er óumdeilt. Langflestir, ef ekki allir, íbúar Kópavogs hafa sótt þjónustu á svæðinu. Höfuðborgarsvæðið allt sækir sömuleiðis í þjónustuna sem þarna er í boði. Það er jákvætt fyrir sveitarfélagið að blómlegt atvinnulíf sé til staðar og það er mikilvægt að Kópavogsbær sem stjórnvald taki fyrirtækjunum þar ekki sem gefnum hlut, vinni með atvinnurekendum á svæðinu og mæti þörfum þeirra.

Furðulegt skipulag

Mörg þeirra sem sækja þjónustu á Smiðjuvegi hafa eflaust klórað sér í höfðinu við að leita að viðeigandi fyrirtæki. Smiðjuvegur er sérlega einstakur að því leyti að hann er í raun nokkrar götur skiptar með litakóða. Þegar viðskiptavinur áttar sig á skiptingunni klórar hann sér líklega enn meira og fastar í höfðinu á meðan hann hringir í fyrirtækið og spyr „hvar eruð þið?“.

Atvinnurekendur á svæðinu hafa ítrekað bent á það viðloðandi vandamál að erfitt er að finna rekstur þeirra sökum furðulegs skipulags á götuheitum. Það kemur margoft fyrir að viðskiptavinur hringir og spyr hvort fyrirtækið sé á græna Smiðjuvegi, rauða Smiðjuvegi eða þeim gula.

Auðveld lausn

Framsókn í Kópavogi vill, í samræmi við óskir atvinnurekenda á Smiðjuvegi, breyta götuheitum á svæðinu og með því auðvelda fyrirtækjunum lífið. Hægt væri að koma hugmyndasamkeppni um götuheitin á laggirnar. Það skiptir í raun ekki öllu máli hvað göturnar myndu heita. Þetta snýst fyrst og fremst um einföldun.

Atvinnurekendur á Smiðjuvegi hafa áður tekið saman og lagt til að farið væri í ofangreinda aðgerð. Stuðningur stjórnvalda var þá að skornum skammti og þannig strandaði málið.

Við í Framsókn í Kópavogi viljum vinna með atvinnurekendunum og mæta þeim með skynsamri lausn á þessu furðulega vandamáli. Klárum málið með skynsemi, samvinnu og þátttöku íbúa að leiðarljósi, eins og við í Framsókn tölum ávallt fyrir.

Gunnar Sær Ragnarsson
Höfundur situr í 4. sæti á lista Framsóknar í Kópavogi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar