Hvað vilt þú sjá við Kársneshöfn?

Þær jákvæðu breytingar sem hafa orðið á Kársnesinu hafa vart farið fram hjá Kópavogsbúum. Frábær veitinga- og kaffihús lifa þar góðu lífi ásamt annarri þjónustu og afþreyingu sem eykur bæði mannlíf og lífsgæði íbúa.

Nú nýverið var samþykkt ný íbúðarbyggð sem kemur í stað iðnaðarhúsnæðis rétt við Þinghólsbrautina (svokallað svæði 13). Byggðin er lágreist, flest húsin eru tveggja til þriggja hæða og þar sem fjórða hæðin bætist við er hún inndregin. Fyrsta vinnslutillagan að deiliskipulaginu fyrir svæðið var gerð árið 2020 og við tók tveggja ára ítarlegt kynningar- og samráðsferli sem var langt umfram lögbundið kynningarferli. Fundir voru haldnir með íbúum nærliggjandi húsa ásamt nokkurra opinna kynningarfunda þar sem skipulagið var kynnt og frestur til athugasemda var hafður tvöfalt lengri en lögin kveða á um.

Á þessum tveimur árum breyttist tillagan mikið til móts við ábendingar íbúa. Má þar helst nefna:
Íbúðum var fækkað úr 160 í 150
Hæðir húsa lækkaðar
Byggingarreitir minnkaðir og meira uppbrot í byggingum
Græn svæði stækkuð
Göngutengingum fjölgað
Landfylling minnkuð úr 1700m2 í 730m2
Dvalarsvæði bætt við ásamt leiksvæði fyrir börnin
Bílakjallari minnkaður

Hjördís Ýr Johnson

Falleg lágreist byggð, á þessum stað, í stað iðnaðarhúsnæðis mun gjörbreyta ásýnd svæðisins og styðja vel við áframhaldandi eflingu á aðstöðu fyrir fjölbreytt mannlíf á Kársnesinu.

Næsta skref að hefja hönnun á Kársneshöfn og umhverfi hennar

Markmiðið er, líkt og fram kemur í aðalskipulagi bæjarins, að höfnin verði geðprýðishöfn/yndishöfn með blandaðri notkun íbúða, verslunar og þjónustu. Höfnin á að vera falleg og áhugaverð að heimsækja með aðliggjandi göngu- og hjólastígum. Samkvæmt aðalskipulagi er jafnframt gert ráð fyrir stækkun smábátahafnarinnar sem býður upp á mikla og spennandi möguleika. Aðstaða seglskúta og annarra smábáta mun eflast, möguleikar á ferðatengdri þjónustu opnast og þar væri hægt að koma fyrir t.d. kaffihúsi, aðstöðu til sjóbaða og fallegu rými til að njóta þegar sólin lætur sjá sig. Þessi hönnunarvinna er ekki hafin en vonir standa til að hægt sé að hefja hana fljótlega og þá í samvinnu við íbúa og það verður vel auglýst þegar þar að kemur. Það er því ekki út vegi að byrja að huga að því hvað þú, kæri lesandi, vilt sjá við Kársneshöfnina. Til að koma hugmyndafluginu í gang eru hér örfáar hugmyndir sem hafa nú þegar verið nefndar:

Viðarbryggja með sólar- og sjóbaðsaðstöðu
Viðarbryggja með heitum potti og/eða sauna
Jólaþorp á veturna í léttum færanlegum byggingum
Kaffihús
Listasmiðjur
Mathöll
Útilistaverk sem hægt er að klifra í eða sitja á

Sjóbaðsaðstaða í Hasle Danmörku

Möguleikarnir eru margvíslegir og ljóst að framundan er skemmtileg vinna við áframhaldandi uppbyggingu á Kársnesi þar sem áherslan verður á að efla mannlífið og lífsgæðin í bæjarfélaginu okkar.

Hjördís Ýr Johnson
Bæjarfulltrúi og formaður skipulagsráðs

Forsíðumynd: Yfirlitsmynd sem sýnir svæði 13 og dæmi um stækkaða smábátahöfn

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar