Hvað vilt þú sjá í Menningarmiðju Kópavogs? 

Nú stendur yfir hugmyndasöfnun meðal íbúa Kópavogs um nýja ásýnd og upplifun í hjarta Kópavogs. Kallað er eftir hugmyndum um hvers konar upplifun, afþreyingu og aðstöðu í öllu rýminu á fyrstu hæð Bókasafns Kópavogs og Náttúrufræðistofu, bæjarbúar sjá fyrir sér. Áfram er gert ráð fyrir að barnabókasafnið verði á fyrstu hæð auk safns Náttúrufræðistofu en hugmyndavinna snýst um að móta umhverfið þar í kring.  Þá er einnig óskað eftir hugmyndum um afþreyingu og upplifun á útisvæðinu við menningarhúsin og á Hálsatorgi.  

Vilja skapa heilsteypta og lifandi menningarmiðju í Kópavogi

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir að hugmyndasöfnun Kópavogsbæjar sé liður í íbúalýðræði bæjarins. ,,Við viljum endurhugsa og skipuleggja útisvæði í kringum  menningarstofnanir Kópavogs  og teljum mikilvægt að raddir íbúa heyrist í þeirri vegferð. Verkefnið snýst um að skapa heilsteypta og lifandi Menningarmiðju í Kópavogi, í samvinnu við íbúa og verða hugmyndir notaðar sem innlegg í mótun okkar glæsilegu menningarstofnana.” 
 
Hugmyndasöfnunin hófst 23. júní og stendur til 14. júlí. Þann 9. september verða hugmyndirnar kynntar á opnum degi í menningarhúsunum en þar verða einnig kynntar hugmyndir sem starfsmenn menningarhúsanna og lista- og menningarráð komu sér saman um á opnum starfsdegi þeirra í maí. Á kynningunni gefst almenningi kostur á að ræða fram komnar hugmyndir og bæta við þær. 

Óskir bæjarbúa skipta máli 

Í byrjun árs 2024 stendur til að ráðast í endurhönnun á fyrstu hæð safnhússins, þar sem nú er barnadeild bókasafnsins og sýning Náttúrufræðistofu.  ,,Í rýminu verður áfram rekin barnadeild bókasafnsins og sýningar úr Náttúrufræðistofu en kallað er eftir hugmyndum um breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Auk þess er ætlað að nýta rýmið á fjölbreyttari hátt þannig að það þjónusti almenning betur með ólíkri virkni eins og finna má víða í bókasöfnum í nágrannalöndum okkar, þar sem mikið er lagt upp úr upplifun bæjarbúa með sérstaka áherslu á yngri kynslóðina, til dæmis með leik- og búningasvæði,“pop-up”listasýningar og fjölnota rými til leik og fræðslu,” segir Ásdís 

Útisvæðið við menningarhúsin eru römmuð inn af fjórum mikilvægum menningarstofnunum; Bókasafni Kópavogs, Náttúrufræðistofu, Gerðarsafni og Salnum. Landrýmið sem kallað er eftir hugmyndum um, afmarkast af Borgarholti, Borgarholtsbraut og Hamraborg.  

Að sögn Ásdísar hefur útisvæðið við menningarhúsin ekki verið skipulagt með formlegum hætti en það hefur þróast á þann hátt að nú er það  vinsælt leiksvæði fyrir börn og kærkominn áningarstaður fyrir fullorðna. Við viljum leita eftir hugmyndum frá almenningi um hvers konar afþreyingu á svæðinu bæjarbúar vilja sjá. ,,Allar hugmyndir eru kærkomnar t.d. útieldhús, tónleikasvið, höggmyndagarður eða bara eitthvað allt annað,” segir Ásdís. 

Hálsatorg býður upp á ótal tækifæri 

Þá segir Ásdís að Hálsatorg hafi ekki verið nýtt sem skyldi en það afmarkast af Kópavogshálsi, Digranesvegi og Hamraborg. ,,Á sólardögum er torgið nánast tómt, sem er miður. Torgið hefur fallega ásýnd með hringlaga hellulögn, sviði og vegglistaverki. Það býður upp á ótal tækifæri og er að mínu mati nánast óskrifað blað. Við viljum gera Hálstorg vistlegra, til dæmis vilja bæjarbúar sjá meiri gróður svo svæðið verði skjólsælla eða fleiri bekki ogstóla,” segir Ásdís 
  
Að lokum segir Ásdís að markmið með hugmyndasöfnuninni sé að Menningarmiðja Kópavogs endurspegli vilja og óskir bæjarbúa og því séu íbúar hvattir til að leggja sitt af mörkum til hugmyndasöfnunarinnar. Til að taka þátt í hugmyndasöfnuninni skrá íbúar sig inn á https://menningarmidja-kopavogs.betraisland.is 
 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar