Í síðasta tölublaði Kópavogspóstsins var að finna auglýsingu frá Kópavogsbæ um forkynningu á nýju deiliskipulagi Vatnsendahæðar í Vatnsendahvarfi. Þar á að rísa nýtt íbúðahverfi með allt að 500 íbúðum, þ.a. 150 – 200 í sérbýli og nú er íbúum boðið að skipulagsborðinu með virkari hætti en áður hefur verið gert. Þeim er boðið að hafa áhrif á endanlegt skipulag svæðisins með því að taka þátt í mótun Þess á meðan það er enn í vinnslu. Vinnslutillaga eða drög að deiliskipulagi er tillaga sem sett er fram af bæjaryfirvöldum sem umræðugrundvöllur við íbúa. Þeir geta sent inn sínar athugasemdir eða tillögur að úrbótum áður en endanleg deiliskipulagsvinna hefst og þær verða hafðar til hliðsjónar í þeirri vinnu.
Kynningarskilti í Krónunni
Nú er í fyrsta sinn boðið upp á að skoða tillöguna á stórum skiltum sem eru til sýnis í opnu rými Krónunnar í Kórahverfi. Þar er hægt að rýna tillögurnar til 21. apríl þegar kynningartíma líkur. Þegar hefur verið haldinn fundur um tillöguna með nemendum í Hörðuvallaskóla og gert er ráð fyrir öðrum með eldri borgurum í félagsmiðstöð þeirra í Boðaþingi. En svo er það hópurinn sem fellur á milli þessara tveggja aldursflokka. Það hefur reynst erfitt að fá hann til samtals. Það er fólkið sem heldur atvinnulífinu gangandi og hefur nóg með að sinna vinnu og fjölskyldu. Við viljum líka ná eyrum þeirra og fá að heyra þeirra tillögur. Ef við ætlum að byggja bæ í samvinnu við íbúa þurfum við öll að taka þátt ef við teljum það skila betri vinnu.
Betra samtal við íbúa
Samfylkingin hefur barist fyrir betra samtali við íbúa og nú er nýtt skref tekið með því að hafa skipulagstillögu aðgengilega í opnu rými þar sem allir eiga leið um. Vonandi munu íbúar Kórahverfis sem leið eiga í Krónuna í Kórahverfi gefa sér tíma til að kíkja á tillöguna og í framhaldinu senda bæjaryfirvöldum skilaboð á [email protected] um það sem betur má fara að þeirra mati ef þeir sjá tækifæri til úrbóta. Þannig byggjum við betri bæ saman.
Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi