Hundrað loforð – merkið við og fylgist með

Kópavogur hefur um langt skeið verið farsælt sveitarfélag í fremstu röð. Sveitarfélagið er vel rekið og skynsamar ákvarðanir hafa verið teknar. Losaratök í fjármálum sveitarfélaga, líkt og sést í höfuðborginni, er því slóð sem Kópavogsbúar vilja ekki og eiga ekki að feta.
Við, frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins, komum fram með nýjar og ferskar hugmyndir og við ætlum að láta verkin tala. Við höfum í aðdraganda kosninga birt lista yfir 100 loforð sem við leggjum í dóm kjósenda. Það er meðal þeirra verkefna sem við ætlum að setja í forgang á kjörtímabilinu. Loforðin eru ábyrg og raunhæf, en forsenda þeirra er að Sjálfstæðisflokkurinn hafi umboð til að fylgja þeim eftir.

Við lofum því að listi loforðanna verði áfram opinber eftir kosningar þannig að Kópavogsbúar geti fylgst með framgangi verkefna á kjörtímabilinu. Þannig boðum við gagnsæi um framgang listans sem um leið tryggir aðhald frá kjósendum næstu fjögur árin.
Fjárhagsstaða Kópavogs verður áfram sterk undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Ábyrgur rekstur er forsenda þess að unnt sé að veita sveigjanlega og framúrskarandi þjónustu sem mætir þörfum íbúa. Við ætlum að lækka fasteignaskatta á íbúa og fyrirtæki og stilla öðrum álögum í hóf og leita leiða til að lækka þær.

Áhersla á framsækni og metnað í menntun barna skapar farsælt samfélag. Við setjum markið hátt í menntamálum til að tryggja bjarta framtíð fyrir börnin okkar. Með auknu sjálfstæði verður sveigjanleikinn meiri. Við viljum því leyfa skólum að skipuleggja starf sitt og áherslur til að efla og bæta menntun barna okkar.

Okkur er alvara með að afnema biðlista og brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til börn fá leikskólapláss. Við komum fram með raunhæfar lausnir í þessum efnum. Við ætlum að auka hratt framboð á dagvistunarúrræðum með því að setja upp færanlegar stofur í þeim hverfum þar sem þörfin er mest.

Það er hlutverk sveitarfélaga að þjónusta íbúa en ekki öfugt. Það verður leiðarljós okkar næstu fjögur árin, fáum við til þess umboð. Við ætlum að leggja okkur öll fram. Við ætlum að vinna að heilindum og gæta hagsmuna Kópavogsbúa í hvívetna og við ætlum að gera mjög góðan bæ enn betri. Því við vitum að framtíðin er í Kópavogi.

Ásdís Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar