Hundarnir okkar í Kópavogi.

„Hundurinn er besti vinur mannsins.“

Fjölmargar íslenskar fjölskyldur eiga hund. Á Suðvestursvæðinu eru um 2500 skráðir hundar og hér í Kópavogi eru þeir um 900. Líklega er fjöldinn nær þúsund þegar óskráðir hundar eru teknir með. Það er greinilega mikill áhugi á hundum í Kópavogi. Hundurinn er hluti af fjölskyldunni og við viljum þeim allt það besta. Þeim finnst fátt skemmtilegra en að fá að hlaupa lausir og leika sér á stóru svæði. Margir íbúar Kópavogs gera sér ferð í skilgreind hundagerði eða hundasvæði og leyfa hundunum sínum að leika lausum hala, sem þeir kunna almennt vel að meta. Hundarnir losa orku, nýta þefskynið og kynnast öðrum hundum.

Fækkun hundasvæða er þjónustuskerðing

Það liggur fyrir að þörf er á fleiri skilgreindum hundasvæðum hér í Kópavogi. Íbúar hafa ítrekað kallað eftir þeim, en því miður fer þeim fækkandi. Til dæmis mun flott hundasvæði á Vatnsenda eyðast við uppbyggingu Vatnsendahæðar. Í þessu felst talsverð þjónustuskerðing við stóran hluta íbúanna og við þessu þarf að bregðast. Fyrr á núverandi kjörtímabili hafði skipulagsráð Kópavogsbæjar lagt drög að nýju hundagerði, sem var svo því miður fellt af borðinu.

Framsókn í Kópavogi leggur áherslu á það að íbúar hafi tækifæri til að sækja skilgreind hundasvæði þvert yfir sveitarfélagið. Nauðsynlegt er að fjölga hundasvæðum og hundagerðum í bænum, en til þess þarf að gera ráð fyrir þeim í skipulags- og uppbyggingarvinnu Kópavogs. Hundasvæðin þurfa einnig að vera hundunum okkar örugg og vera hentuglega staðsett.

Fjölgum og bætum

Rauði þráðurinn er þessi; Kópavogsbær á að fjölga skilgreindum hundasvæðum og bæta þau sem nú þegar eru, þ.e. gera þau meira aðlaðandi og öruggari. Fólk verður að geta sleppt hundunum sínum lausum á svæðunum án þess að hafa áhyggjur af holum eða öðru slíku sem geta leitt til meiðsla. Við skilgreiningu nýrra hundasvæða þarf að horfa m.a. til nauðsyn þeirra í Vesturbænum og í Dalnum ásamt því að bæta íbúum Vatnsenda upp fyrir svæðið sem hverfur við uppbygginguna þar. Í deiliskipulagi Vatnsendahæðar í Vatnsendahvarfi er gert ráð fyrir hundagerði, sem vissulega er gott. Við þurfum þó að vera á verðinum við því að það hverfi ekki í áframhaldandi skipulagsvinnu.

Hundasvæði eru mikil þjónustubót fyrir fjölmarga íbúa Kópavogs og við megum ekki gleyma þeim.

Gunnar Sær og Loki.

Betri aðstaða fyrir hundana okkar

Þá liggur einnig fyrir að bæta þurfi aðstöðu fyrir hunda og hundaeigendur almennt í Kópavogi. Fjölmargir hafa kallað eftir að ekki sé tekið nógu mikið tillit til þeirra í útivistarmöguleikum bæjarins. Sem dæmi þá hefur ítrekað verið bent á nauðsyn þess að fleiri ruslatunnur séu til staðar sem eigendur geta losað pokana í. Sniðugt væri að mynda heilstæða áætlun um hundavænni Kópavog í upphafi næsta kjörtímabils, sem myndi fjalla um hundasvæði og hundavænni útivistarmöguleika almennt.

Sigrún Hulda er meðlimur í Hundaræktunarfélagi Íslands og situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Kópavogi.
Gunnar Sær situr í 4. sæti á lista Framsóknar í Kópavogi.

Forsíðumynd: Sigrún Hulda, Sika, Mýra og Erik.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar