Hulda Jónsdóttir flytur glæsileg einleiksverk fyrir fiðlu í Salnum

Heillandi einleiksverk eftir Johann Sebastian Bach, Paul Hindemith og Kaiju Saariaho hljóma á þessum hádegistónleikum í Salnum miðvikudaginn 15. nóvember kl. 12:15. 

Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin. 

Hulda Jónsdóttir gegnir stöðu uppfærslumanns 2. fiðlu við Det Kongelige Kapel (Konunglegu Dönsku Sinfóníuhljómsveitarinnar) í Kaupmannahöfn. Auk starfsins hjá Kongelige Kapel leikur hún með strengjakvintettinum Wooden Elephant, en sá hópur sérhæfir sig í að takast á við verk eftir tónlistarmenn úr öðrum geirum en hinum klassíska. Kvintettinn hefur vakið töluverða athygli og fengið tækifæri til að leika í virtum tónleikasölum og hátíðum í Evrópu við góðan orðstír. 

Nýverið starfaði hópurinn með Ballet am Rhein og danshöfundinun Gil Harush, kom fram með bandarísku listakonunni Moor Mother og Beethovenorchester Bonn, lék á Days Off hátíð Philharmonie de Paris, Verbier Festival í Sviss og á útvarpstónleikum fyrir Bayerischer Rundfunk. 

Hulda Jónsdóttir er fædd 1991 og hóf fiðlunám í Reykjavík fjögurra ára gömul. Vorið 2009 lauk hún diplómaprófi frá Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttir og hóf haustið 2009 nám við The Juilliard School í New York. Hún nam þar í borg um sex ára skeið hjá Robert Mann, David Chan og Laurie Smukler og lauk Master of Music gráðu frá Juilliard vorið 2015. 

Að námi loknu starfaði Hulda í Þýskalandi og lék m.a. vetrarlangt með Ensemble Resonanz, staðarlistamönnum Elbphilharmonie í Hamburg og um tíma með Philharmonisches Staatsorchester Hamburg. 

Sem einleikari og kammertónlistarmaður hefur hún tvívegis leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar