Hugrökk leið að því marki að skapa nýtt, mannvænt og spennandi miðbæjarumhverfi fyrir Kópavog

ASK akritektar hlutu verðlaun með tillögu sinni Borg í mótun/Grænn miðbær í hugmyndasamkeppni um þverun Reykjanesbrautar ásamt byggð yfir og/eða við Reykjanesbraut auk tengingar fyrir vistvæna ferðamáta í svæðiskjarna í Smára. Niðurstaða keppninnar var kynnt í síðustu viku og verðlaunahöfum veittar viðurkenningar.

Hjördís Ýr Johnson

Bæjarstjórn Kópavogs átti frumkvæðið að hugmyndasamkeppninni sem samþykkt var einum rómi í bæjarstjórn 11. maí, 2021.

Hugmyndasamkeppnin var unnin í samvinnu Kópavogsbæjar og Arkitektafélags Íslands.

Vilja tengja Glaðheima og Smárann betur

Hjördís Ýr Johnson, bæjarfulltrúi, sat í dómnefnd varðandi hugmyndasamkeppnina um Reykjanesbrautina og Kópavogspósturinn spurði hana hvert markmiðið sé með slíkri keppni á þessu svæði og hvernig hljómar verðlaunatillagana í megindráttum? ,,Hugmyndin um tengingu yfir Reykjanesbrautina er alls ekki ný á nálinni, því um leið og efri byggðirnar í Kópavogi fóru að byggjast upp var ljóst að brautin var að hindra tengingar á milli hverfa. Með því að efna til opinnar hugmyndasamkeppni vorum við að vonast til að fá nýjar og ferskar hugmyndir um hvernig hægt væri að tengja Glaðheima og Smárann betur, ýta undir virka ferðamáta, auðvelda almenningasamgöngur og almennt auka lífsgæði íbúa með fjölbreyttu mannlífi. Við lögðum áherslu á að hafa samkeppnissvæðið frekar stærra en minna þannig að þátttakendur hefðu frjálsari hendur,” segir Hjördís Ýr.

Svæðið gjörbreytist með því að setja Reykjanesbrautina í stokk

Og þessi hugmynd breytir gríðarlega miklu fyrir ásýnd Kópavogsbæjar, tengir bæinn og ákveðin svæði mikið betur saman? ,,Já það komu þrjár tillögur, allar mjög góðar og líka ólíkar sem var gaman að sjá. Í vinningstillögunni fer Reykjanesbraut í stokk á nær öllu samkeppnissvæðinu og algjörlega gjöbreytir svæðinu. Í raun má segja að hér sé um að ræða alveg nýja hugsun í skipulaginu. Í tillögunni er gert ráð fyrir fjölbreyttri byggð með fjölda nýrra tenginga á milli hverfanna, eitthvað sem ekki er til staðar núna. Það er einnig gert ráð fyrir nýjum torgum og grænum svæðum sem býður upp á marga möguleika.

70% íbúðarhúnæði og 30% atvinnuhúsnæði

Hvers konar byggð sjáið þið fyrir ykkur? ,,Samkvæmt tillögunni er um að ræða blandaða byggð með um 70% íbúðarhúnæðis og 30% atvinnuhúsnæðis. Byggðin er fjölbreytt með um 3-5 hæða byggingar og er með grænt yfirbragð ég get alveg séð að það gæti hentað þessu svæði mjög vel. Það er þó mikilvægt að taka fram að hér er um að ræða hugmyndavinnu, tillagan er frábær grunnur til að byrja að huga að því að koma Reykjanesbrautinni í stokk, en nákvæma útfærslu þarf að skoða betur.”

Skapast heilmikil verðmæti við svona stokkalausn

Þetta er ákveðin framtíðarsýn. Hvenær telurðu að þessu geti orðið þ.e.a.s. að Reykjanesbrautin fari í stokk, þetta er ekki inn á samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar á næstu árum? ,,Það er góð spurning, Glaðheimarnir voru tilbúnir til úthlutunar en ljóst að það þarf að skoða það skipulag í samhengi við niðurstöður samkeppninnar. Það ætti samt að geta farið saman að vinna að útfærslu stokksins þó svo byrjað sé að byggja í Glaðheimum. Það skapast heilmikil verðmæti við svona stokkalausn sem koma á móti kostnaði.”

Það þarf bara að hefja samtalið

Getur Kópavogsbær gert eitthvað til að koma þessu áfram, þrýst á þetta fari inn á samgönguáætlun? ,,Það þarf bara að hefja samtalið og byrja á að skoða hvaða leiðir eru færar. Þessi tillaga er svo sannarlega góður grunnur í þá vegferð og það er mikill hugur í okkur að hefjast handa,” segir Hjördís Ýr að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar