Hugafarið í hópnum var stórkostlegt – segir Halldór Árnason þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks

Breiðablik tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í Bestu deild karla sl. sunnudag, eins og öllum er kunnugt um, með mjög sannfærandi sigri á gríðarlega erfiðum útivelli í Víkinni, en uppselt var á völlinn, 2.500 manns og af þeim voru aðeins 250 Blikar.

Það virtist þó ekki skipta máli enda höfðu stuðningsmenn Blikanna hátt, voru greinilega vel gíraðir fyrir leikinn sem og leikmenn Breiðabliks sem léku í raun við hvern sinn fingur á móti ríkjandi Íslandsmeisturum, þar sem sjálftraustið og leikgleðin skein úr hverju andliti. Leikmenn Breiðabliks stigu vart feilspor og héldu öflugi skipulagi sem þjálfari ársins, Halldór Árnason, hafði lagt upp fyrir leikinn, en þetta var fyrsta ár Halldórs sem aðalþjálfari Breiðabliks. Stórt hrós á hann sem og leikmenn Breiðabliks að koðna ekki undan pressunni sem var á liðinu fyrir leikinn, eins og Víkingur gerði.

Töpuðu aðeins einum deildarleik frá 6. maí

Og Halldór er væntanlega enn mjög lukkulegur í dag með þennan frábæra árangur sem liðið náði í sumar og sérstaklega hvernig liðið negldi leikinn á móti ríkjandi Íslandsmeisturum Víkings? ,,Já, árangur í sumar er auðvitað gjörsamlega frábær. Við höfum ekki tapað leik í 4 mánuði og einungis einum deildarleik síðan 6. maí. Sigurinn á Víkingum kórónaði svo frábært tímabil og það gerði sigurinn enn sætari hversu rosalega sannfærandi hann var,“ segir þjálfarinn, Halldór Árnason.

Vorum bara ákveðnir í að sækja þennan titil og sækja leikinn til sigurs

Þú sagðir í viðtali við Kópavogspóstinn í síðustu viku, fyrir stórleikinn, að dagsformið og hugafarið væri það sem skipti öllu máli í þessum leik, var það þannig eða hvað er það sem skildi liðin að – vel útfært leikskipulag þjálfarans hlýtur að hafa eitthvað að segja? ,,Við vorum bara ákveðnir í að sækja þennan titil og sækja leikinn til sigurs. Menn æfðu vel í vikunni fyrir leikinn og hugarfarið í hópnum var stórkostlegt. Það er eitt að koma með leikplan en leikmennirnir eiga allt hrós skilið fyrir að fylgja planinu í 90 mínútur. Til þess þurfti mikið hugrekki.“

Mér leið frá fyrstu mínútu eins og þeir gætu ekki hlaupið með okkur

Þið náið inn marki svona rétt fyrir hálfleik, eða á 38 mínútu – hversu stórt var það fyrir ykkur og sjálfstraustið að ná að setja mark fyrir hálfleikinn? ,,Mér leið frá fyrstu mínútu eins og þeir gætu ekki hlaupið með okkur. Það voru ennþá 17 mínútur eftir af hálfleiknum þegar Ísak skorar og mér leið alltaf eins og við myndum skora fyrir hálfleik. En í raun breytti það engu. Nálgunin inn í seinni hálfleikinn var bara sú sama. Ekki bíða, ekki verja neitt og ekki treysta á neitt sem við höfum ekki stjórn á sjálfir. Áherslan var því halda áfram að hamra á þeim og reyna að ná inn öðru marki.“

Og svo náði Ísak að bæta við sínu öðru marki strax á 49 mínútu, þetta hefur verið þungt högg í andliti Víkinga og að sama skapi aukið sjálfstraust ykkar til muna – fannst þér liðið fá auka vítamínssprautu við þetta mark? ,,Mantran okkar í allt sumar hefur verið að láta atvik í leiknum ekki hafa áhrif á okkur og halda alltaf plani. Mér fannst menn gera það vel í gegnum allan leikinn.“

Breiðabliksliðið hefur fyrst og fremst gríðarlega sterka liðsheild

Og það hefur svo verið ljúft að sigla þessu heim, en segðu mér. Hvernig býr maður til lið sem verður Íslandsmeistari, hvað þarf að vera til staðar svo það takist fyrir utan þjálfarann að sjálfsögðu, sem skipar stóran þátt í þessum árangri ásamt þjálfarateyminu? ,,Fyrst og fremst þarftu að geta búið til mikla liðsheild. Samansafn af hæfileikaríkum einstaklingum er ekki nóg til að vinna titla og það sem þetta ótrúlega Breiðablikslið hefur fyrst og fremst framyfir aðra er gríðarlega sterk liðsheild.“

Hópurinn sem var settur saman að lokum var hópur til að vinna titilinn

Þetta er þitt fyrsta tímabil sem aðalþjálfari Breiðabliks, en það er bara rétt ár liðið síðan þú tókst við því – varstu með fókusinn á þessu allt frá því að þú skrifaðir undir, að koma heim í Kópavoginn með Íslandsmeistaratitillinn? ,,Já, það var alltaf markmið okkar að vinna titilinn. Tímabilið í fyrra var langt og strangt og undirbúningstímabilið stutt. Við misstum marga leikmenn sem höfðu spilað stórt hlutverk í liðinu og við höfðum skamman tíma til að setja saman leikmannahóp fyrir komandi tímabil. Hópurinn sem var settur saman að lokum var hópur til að vinna titilinn.“

Ekki nægilega talað um hversu stórkostlegt afrek það er fyrir félagið að vinna þann stóra bæði í kvennaflokki og karlaflokki

Það vill svo til að kvennalið Breiðabliks varð einnig Íslandsmeistari í ár með Nik Chamberlain sem þjálfara liðsins á sínu fyrsta ári. Er eitthvað samtarf þarna á milli, vinnið þjálfarateymin eitthvað saman? ,,Nik hefur gert frábæra hluti síðan hann kom í Breiðablik og kom með mikinn ferskleika og fagmennsku inn í klúbbinn. Það hefur verið frábært að fylgjast með honum og stelpunum í allan vetur og sumar og ég vil enn og aftur óska þeim til hamingju með þeirra frábæra árangur. Eins hefur mér ekki þótt talað nægilega um hversu stórkostlegt afrek það er fyrir félagið að vinna þann stóra bæði í kvennaflokki og karlaflokki.“

Maður má aldrei verða saddur eða halda að þú hafir náð toppnum

Íslandsmeistarar, það verður ekki stærra, þú ert sjálfsagt ekki kominn þangað, en hvernig geturðu svo bætt liðið enn frekar, tekið skref framá við? ,,Það er ljóst að maður má aldrei verða saddur eða halda að þú hafir náð toppnum. Menn taka nokkra daga núna og njóta þess að vera nýkrýnndir Íslandsmeistarar en svo þurfum við að setjast niður, setja okkur ný markmið og sjá hvernig við getum tekið liðið ennþá lengra.“

Í eðli fótboltans að það verða alltaf einhverjar breytingar

Og er ekki hollt fyrir öll lið sem verða Íslandsmeistarar að hrista aðeins upp í leikmannahópnum þrátt fyrir að þau séu Íslandsmeistara og sjálfsagt með besta og samstiltasta hópinn  – ætlið þið að gera einhverjar breytingar á hópnum – eru einhverjir að fara og ertu komin með augastað á nýja leikmenn? ,,Það er ljóst að það verða einhverjar breytingar á hópnum. Við tökum okkur tíma í það allt saman – en það er auðvitað bara í eðli fótboltans að á hverju tímabili renna út samningar, leikmenn eru seldir í önnur félög og aðrir koma í staðinn. Það verður engin breyting á því hjá Breiðabliki í ár.“

Það er ljóst að möguleikar íslenskra liða á að ná lengra eru töluvert meiri með þessum hætti

Þið eruð á leið í forkeppni meistaradeildarinnar á næsta ári og stefnið sjálfsagt á að komast í sjálfa Sambandsdeildina eins og Víkingar eru með í ár og þið voruð með í fyrra, í öðruvísi fyrirkomulagi reyndar. Lærðu þið mikið á þátttöku ykkar í fyrra og langar ykkur að komast þangað aftur – skiptir miklu máli fyrir fjárhag deildarinnar? ,,Það eru sem betur fer aðrir sem sjá um fjármálin, en við stefnum að sjálfsögðu á að komast langt í Evrópu, bara á fótboltalegum forsendum. Þetta er auðvitað allt annað fyrirkomulag en áður, og ég er í raun þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í riðlakeppni Evrópu. Maður á svona eftir að venjast þessu nýja fyrirkomulagi, en það er ljóst að möguleikar íslenskra liða á að ná lengra eru töluvert meiri með þessum hætti. En það er hinsvegar ekki sjálfgefið að komast alla leið í deildarkeppnina og við þurfum að passa að mæta með lið sem er líklegt til að geta átt góðan möguleika á því.“
 
En hvernig verða svo næstu dagar hjá þjálfara Íslandsmeistarana? ,,Leikmenn eru komnir í frí fram í byrjun desember, en við þjálfarateymið erum farnir að undirbúa næsta tímabil.“

Takk kærlega fyrir stuðninginn í sumar

Vill þjálfarinn segja eitthvað að lokum? ,,Takk kærlega fyrir stuðninginn í sumar. Sunnudagurinn sýndi enn og aftur hversu stórt og öflugt Blikasamfélagið er. Stuðningurinn sem við fengum úr öllum áttum átti svo sannarlega stóran þátt í árangrinum,“ segir þjálfari Íslandsmeistararna, Halldór Árnason

Forsíðumynd. Halldór Árnason þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks árið 2024 ásamt eiginkonu sinni, Helen Hergeirsdóttur.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins