Hringskonur heimsóttu Geðræktarhúsið í Kópavogi

Stjórn kvenfélagsins Hringsins heimsótti Geðræktarhúsið í Kópavogi en húsið var reist fyrir tilstuðlan Hringskvenna fyrir rétt tæpum 100 árum síðan.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, tók á móti Hringskonum sem skoðuðu húsið eftir miklar endurbætur sem Kópavogsbær hefur unnið á húsinu. Þá var núverandi starfsemi hússins kynnt en í húsinu fer fram margvísleg starfsemi sem leggur áherslu á jákvæðni og andlega heilsu.

Húsið var tekið í notkun árið 1926. Kristín Vídalín Jacobsen, fyrsti formaður Hringsins, hafði forgöngu um málið auk þess sem Ingibjörg H. Bjarnason, sem er fyrst kvenna kosin til setu á Alþingi, studdi mjög að Hringurinn fengi afnot af Kópavogsjörðinni sem svo varð. Hringurinn rak hressingarhæli fyrir berklasjúklinga í húsinu og starfrækti það til ársins 1939. Hringskonur stóðu einnig fyrir búrekstri á Kópavogsjörðinni sem skilaði hagnaði sem rann í Barnaspítalasjóð Hringsins, sem stofnaður var 1942.

Guðjón Samúelsson teiknaði húsið sem er elsta steinsteypta húsið í Kópavogi. Í húsinu hefur alltaf verið heilbrigðistengd starfsemi, nú með áherslu á geðrækt. Í húsinu eru nú meðal annars haldin námskeið til að vinna gegn kvíða ólíkra aldurshópa, uppeldisnámskeið og hugræktarstundir.

Kópavogsbær eignaðist húsið árið 2003. Það var tekið í notkun 2021 eftir gagngerar endurbætur að innan og utan.

Á myndinni eru: Margrét Björnsdóttir, Ingibjörg Dalberg, Anna Elísabet Ólafsdóttir verkefnastjóri lýðheilsu hjá Kópavogsbæ, Guðlaug Daðadóttir, Anna Björk Eðvarðsdóttir formaður Hringsins, og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar